Mistókst að fá Trump til að skipta um skoðun

Emmanuel Macron Frakklandsforseta var vel tekið af nemendum í Georges …
Emmanuel Macron Frakklandsforseta var vel tekið af nemendum í Georges Washington University. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti viðurkennir að sér hafi líklega mistekist að sannfæra Donald Trump Bandaríkjaforseta um að rifta ekki kjarnorkusamninginum við Íran. Marcron hjónin eru nú í opinberri heimsókn í Bandaríkjunum og for­dæmdi forsetinn m.a. þjóðern­is- og ein­angr­un­ar­stefnu er hann flutti ræðu sína í bandaríska þinginu í gær.

„Mín skoðun er sú .... að hann muni rifta samninginum vegna innanríkismála,“ sagði Macron  fjölmiðla í lok opinberrar heimsóknar sinnar. Trump, hefur tíma til 12 maí nk. til að ákveða hvort hann rifti samninginum, sem er ætlað að hindra Írani í að eignast kjarnorkuvopn. Hefur Trump verið harður gagnrýnandi samningsins og kallað hann „bilaðan“.

Macron notaði sambærilegt orðfæri til að lýsa afstöðu Bandaríkjanna í alþjóðamálum  og loftslagsmálum, sem og varðandi samninginn við Íran. „Þetta getur gengið til skamms tíma, en til lengri tíma er þetta bilað,“ sagði Macron.

Samningurinn, sem gerður var í tíð Baracks Obama forvera Trumps á forsetastóli, kveður á um að Íranar samþykkja að leggja kjarnorkuáætlun sína til hliðar gegn því að efnahagsþvingunum gegn þjóðinni verði aflétt.

Macron sagði fyrir Bandaríkjaferðina að eitt helsta málið á dagskrá í heimsókninni væri að fá Trump til að skipta um skoðun varðandi samninginn. Hann viðurkenndi þó að það væri mikil hætta á að forsetinn myndi rifta honum

Macron kvaðst þó vera sammála Trump um að samningurinn ætti einnig að taka til ítaka Írana í Miðausturlöndum og kjarnorkustarfsemi landsins til langframa, ekki bara kjarnavopnaáætlunar.

Hann muni þó vinna með forsetanum að því að byggja nýtt umhverfi í Miðausturlöndum og ekki hvað síst í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert