Áströlsk kona dæmd til dauða

Maria Elvira Pinto Exposto var glaðleg eftir að hún var …
Maria Elvira Pinto Exposto var glaðleg eftir að hún var sýknuð af ákærunni í desember á síðasta ári. AFP

Áfrýjunardómstóll í Malasíu hefur dæmt ástralska konu til dauða eftir hún var fundin sek um að smygla metamfetamíni. Maria Elvira Pinto Exposto, sem er 54 ára gömul, var handtekin á flugvelli í Kuala Lumpur árið 2014 þegar hún var á leið til Melbourne í Ástralíu. Í fórum hennar fannst rúmlega kíló af metamfetamíni.

Samkvæmt frétt Guardian höfðu fíkniefnin verið saumuð inn í fóðrun á ferðatösku hennar, sem kærasti hennar, sem hún hafði kynnst í gegn um internetið, hafði látið hana fá.

Exposto var sýknuð af ákærunni í desember á síðasta ári, þar sem dómarinn sagði að hún hefði verið blekkt í tvö ár af manninum og orðið ástfangin. Hún hafi svo verið plötuð til þess að ferðast með farangurinn frá Shanghai.

Exposto segist ekki hafa vitað af fíkniefnunum og að hún hafi sjálfviljug sett töskuna í gegn um leitarvél í millilendingu sinni á flugvellinum í Kuala Lumpur.

Verður hengd verði dómurinn staðfestur

Saksóknari áfrýjaði máli Exposto í byrjun þessa árs og áfrýjunardómstóll sneri dómnum við og því hefur Exposto verið dæmd fyrir fíkniefnasmygl. Dauðarefsing hlýst fyrir það að smygla meira en 50 grömmum af fíkniefnum í Malasíu, og á Exposto því von á því að verða hengd.

Saksóknari segir að það komi ekki heim og saman að hún hefði verið að hjálpa einhverjum sem hún þekkti ekki og ferðast með tösku á milli landa. Hún hafi haft fjölmörg tækifæri til þess að kanna innihald töskunnar sem henni hafði verið gefin af einhverjum sem hún hefði hitt aðeins nokkrum klukkustundum fyrr. Hana hefði átt að gruna að ekki væri allt með felldu.

Lögmaður Exposto sagðist vera í áfalli vegna viðsnúning dómsins og að honum yrði áfrýjað til æðri dómstóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert