Kjarnorkuafvopnun var aldrei líkleg

Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpaði útskriftarnema í skóla bandaríska sjóhersins í …
Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpaði útskriftarnema í skóla bandaríska sjóhersins í Maryland í gær. AFP

Mikil óvissa nú er um framhald samningaumleitana við einræðisstjórn Norður-Kóreu eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í fyrradag að hann hefði ákveðið að aflýsa fyrirhugum fundi með leiðtoga hennar, Kim Jong-un. Trump sagði í gær að enn væri mögulegt að fundurinn yrði haldinn, jafnvel 12. júní eins og gert hafði verið ráð fyrir.

Mikið er í húfi fyrir forsetann. Verði ekkert af leiðtogafundinum gæti sú ákvörðun hans að aflýsa honum styrkt stöðu einræðisherrans í Norður-Kóreu, orðið til þess að tengsl hans við stjórnvöld í Kína bötnuðu, og hjálpað honum að reka fleyg á milli Bandaríkjanna og Suður-Kóreu, að mati fréttaskýrenda.

Hugsanlegt er að ákvörðun Trumps um að aflýsa fundinum sé aðeins tímabundið bakslag og hörðustu stuðningsmenn hans halda enn í þá trú að hann geti knúið einræðisherrann til að fallast á kjarnorkuafvopnun Norður-Kóreu. Þótt forsetinn og einræðisherrann ljái enn máls á því að leiðtogafundurinn verði haldinn er mjög ólíklegt að hann leiði til þeirrar niðurstöðu sem Trump og aðdáendur hans hafa vænst og boðað síðustu vikur.

Ekki möguleiki að vopnin verði látin af hendi

Sú blákalda staðreynd blasir við að einræðisstjórnin í Norður-Kóreu hefur orðið sér úti um kjarnvopn, smíðað langdrægar eldflaugar og er staðráðin í að öðlast viðurkenningu sem kjarnorkuveldi. Hún ætlar að notfæra sér þessa stöðu sína út í ystu æsar, m.a. til að binda enda á refsiaðgerðirnar gegn landinu. Hún hefur alltaf haldið því fram að hún þurfi á kjarnavopnum að halda til að koma í veg fyrir að Bandaríkjamenn og samstarfsþjóðir þeirra geri árásir á landið og reyni að steypa einræðisstjórninni af stóli. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að þessi afstaða hennar hafi breyst, að mati sérfræðinga í málefnum Norður-Kóreu, þ.ám. Jang Sung-min, eins af helstu ráðgjöfum Kim Dae-jung, fyrrverandi forseta Suður-Kóreu. „Það er enginn möguleiki á að þeir láti kjarnavopn sín af hendi,“ hefur The Wall Street Journal eftir Jang.

Samt hefur Donald Trump sagt að hann telji að Kim hafi verið „mjög hreinskilinn“, „mjög heiðvirður“ og „mjög einlægur“ í viðræðunum um afvopnun. Hann hefur talað um að samband sitt við einræðisherrann í Norður-Kóreu sé „dásamlegt“ og stuðningsmenn hans sögðu að forsetinn hefði náð meiri árangri gagnvart Norður-Kóreu með tísti sínu og stóryrðum á Twitter en forverar hans með hefðbundnari aðferðum síðustu áratugi. Fylgismenn hans í Bandaríkjunum voru farnir að tala í spjallþáttum sjónvarps- og útvarpsstöðva um að Trump verðskuldaði friðarverðlaun Nóbels fyrir að knýja einræðisherrann til samningaviðræðna. „Nóbelinn! Nóbelinn! Nóbelinn!“ hrópuðu aðdáendur forsetans á samkomum með honum. Fyrr í mánuðinum var Trump spurður hvort hann verðskuldaði Nóbelinn og hann svaraði glaðlega: „allir telja það“.

Þessi ofurbjartsýni eða óskhyggja í aðdraganda leiðtogafundarins er furðuleg í ljósi sögu einræðisstjórnar Norður-Kóreu sem gerði tvo samninga um að hætta kjarnorkutilraunum sínum og sveik þá báða. Svo virðist sem Trump hafi vanmetið viðsemjandann, ekki gert sér grein fyrir hversu flóknar samningaviðræðurnar yrðu, og ofmetið hæfileika sína sem samningamanns.

„Kjarninn í utanríkisstefnu Trumps er sú trú að hann geti beitt persónutöfrum sínum til að töfra fram sína leið að heimsfriði,“ segja fréttaskýrendur The Washington Post, Greg Jaffe og Paul Sonne. Þeir telja að sú ákvörðun forsetans að aflýsa fundinum sýni annmarkana á þessari aðferð í samskiptum við önnur ríki.

Setja öryggið á oddinn

David E. Sanger, fréttaskýrandi The New York Times, tekur í sama streng. Hann segir að Trump hafi tekið á málinu eins og þeir Kim væru fasteignabraskarar að prútta um verðmæta eign og gengið út frá því að viðsemjandinn myndi að lokum fallast á að gefa eignina eftir gegn loforði um að hann myndi græða fúlgur fjár.

Sanger segir að rétt sé að Kim þurfi á peningum, fjárfestingum og tæknisamstarfi að halda en öryggistryggingar fyrir stjórn hans skipti meira máli í augum einræðisherrans en velmegun þjóðarinnar. Hann þurfi að geta sannfært yfirstéttina og yfirmenn hersins í Norður-Kóreu um að hann hafi ekki samið af sér einu öryggistryggingu einræðisstjórnarinnar – kjarnavopnin sem Kim fékk í arf frá föður sínum og afa.

Mismunandi túlkun

Þegar Kim Jong-un talar um „kjarnorkuafvopnun Kóreuskaga“ meinar hann ekki það sama og bandarísk stjórnvöld sem hafa krafist þess að Norður-Kóreustjórn láti öll kjarnavopn sín af hendi og tryggt verði að hún geti ekki hafið smíði gereyðingarvopnanna að nýju síðar. Stjórn Trumps hefur krafist þess að kjarnorkuafvopnunin hefjist þegar í stað og hún taki tiltölulega stuttan tíma, ef til vill minna en ár, og sagt að mikilvægustu refsiaðgerðunum verði ekki aflétt fyrr en afvopnuninni ljúki.

Einræðisstjórn Norður-Kóreu hefur hins vegar séð fyrir sér hæga afvopnun í áföngum og vill að refsiaðgerðunum verði aflétt þegar í stað eða fljótlega eftir að hún hefst. Þar að auki er talið að Kim myndi krefjast öryggistrygginga sem bandarísk stjórnvöld hafa aldrei léð máls á. Þegar Norður-Kóreumenn hafa talað um að þeir vilji kjarnorkuafvopnun á Kóreuskaga hafa þeir sett þau skilyrði að bandarísku hersveitirnar í Suður-Kóreu verði fluttar þaðan og stjórnin í Washington skuldbindi sig til að beita ekki kjarnavopnum til að vernda landið.

Greinin í heild sinni birtist í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert