Rannsókn Mueller verði rannsökuð

Rudy Giuliani ásamt Donald Trump árið 2016.
Rudy Giuliani ásamt Donald Trump árið 2016. AFP

Lögfræðingur Donalds Trump Bandaríkjaforseta vill að opinber rannsókn verði gerð á rannsókn Roberts Mueller, sérstaks saksóknara, vegna meintra afskipta Rússa af bandarísku forsetakosningunum.

Hann segir að hún hafi verið spillt frá upphafi undir stjórn James Comey, fyrrverandi yfirmanns bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, sem Trump rak úr embætti.

„Við viljum að rannsókn Mueller verði rannsökuð alveg eins og gert hefur verið við ríkisstjórn Trump,“ sagði Rudy Giuliani, lögfræðingur Trumps, í viðtali við CNN.

Trump hefur ítrekað sagt að engin afskipti hafi átt sér stað af hálfu Rússa og segir að um nornaveiðar sé að ræða.

Blaðið The Washington Post sagði frá því í dag að Mueller ætli að ljúka við rannsókn sína í lok sumars.

„Við viljum athuga hvort hægt verði að lýsa því yfir að rannsókn sérstaks saksóknara hafi verið ólögleg og óleyfileg,“ sagði Guiliani, fyrrverandi borgarstjóri New York, í samtali við blaðið.

Mueller hefur rannsakað hvort framgangur réttvísinnar hafi verið hindraður. Einnig hefur hann kannað hvort samskipti hafi verið á milli starfsmanna í kosningabaráttu Trumps og Rússa til að reyna að hafa áhrif á kosningabaráttuna árið 2016, Trump í hag.

Til þessa hafa 20 manns verið lögsóttir vegna málsins og að minnsta kosti fjórir hafa samþykkt að aðstoða Mueller við rannsóknina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert