Athvarf eða fangelsi fyrir börn?

Konur og börn í varðhaldi hjá landamæraeftirliti Bandaríkjanna. Samkvæmt harðlínustefnu …
Konur og börn í varðhaldi hjá landamæraeftirliti Bandaríkjanna. Samkvæmt harðlínustefnu Donald Trumps Bandaríkjaforseta í málefnum ólöglegra innflytjenda eru börn aðskilin frá foreldrum sínum við komuna yfir landamærin. For­eldr­un­um er svo stungið í fang­elsi og börnin sett í sérstakar búðir. AFP

Starfsfélagar Antar Davidson báðu hann, þegar þrjú brasilísk börn komu í Estrella del Norte búðirnar í Tuscon í Arizona, að segja þeim að þau mættu ekki faðmast. Davidson er ættaður frá Brasilíu og talar portúgölsku.

Börnin þrjú voru systkyni, 6, 10 og 16 ára gömul og full örvæntingar eftir að hafa verið skilin frá foreldrum sínum á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. „Þau kúrðu sig saman og tárin streymdu niður kinnar þeirra,“ rifjar Davidson upp.

Landamæraverðir höfðu sagt börnunum að foreldrar þeirra væru „týndir“ sem þau túlkuðu sem svo að þau væru dáin. Hann segist hafa sagt börnunum að hann vissi ekki hvar foreldrar þeirra væru, en að þau yrðu að vera sterk.

„Sá 16 ára horfði á mig og spurði: „Hvernig?““ Davidson hugsaði með sjálfum sér er hann horfði á drenginn gráta að þetta væri ekki í lagi.

Búðirnar fangelsi fyrir börn

Davidson sagði í vikunni upp starfi sínu sem æskulýðsfulltrúi í Estrella del Norte, en í búðunum eru hýst ungmenni sem koma fylgdarlaus til Bandaríkjanna. Undanfarna mánuði hafa líka verið flutt þangað börn sem tekin voru af foreldrum sínum við komuna yfir landamærin og er það er hluti af harðlínustefnu Donald Trumps Bandaríkjaforseta í málefnum ólöglegra innflytjenda. For­eldr­un­um er stungið í fang­elsi og hafa gagn­rýn­end­ur talað um að búðirnar sem börn­in eru flutt í séu í raun­inni einnig í fang­elsi.

LA Times ræddi við Davidson sem segir málafjöldann sem fylgi harðlínustefnu Trumps setja mikið álag á Estrella del Norte og aðrar sambærilegar búðir. Starfsfólk hafi ekki fengið þjálfun í að annast börn sem séu að takast á við áfallið við að vera skilin frá foreldrum sínum líkt og brasilísku systkinin þrjú.

Þá mánuði sem hann starfaði í búðunum reyndu sum börnin að flýja, þau öskruðu, köstuðu húsgögnum og reyndu að taka eigið líf. Nokkur voru undir auknu eftirliti í vikunni þar sem hætta var talin á að þau myndu reyna að flýja, skaða sjálf sig eða fremja sjálfsmorð.

Cindy Casares, talskona samtakanna Southwest Key sem reka búðirnar, segir þær standast kröfur yfirvalda, m.a. varðandi starfsmannafjölda og þjálfun.

„Starfsfólk okkar hefur mikla reynslu af að takast á við þennan hóp,“ sagði Casares. „Okkar staðlar eru háir.“ Í yfirlýsingu sem Southwest Key sendi frá sér segir að sl. 20 ár hafi það starfsfólk sem sé ráðið verið með bakgrunn í barnavernd og félagsmálum og geti því brugðist við þroska- og tilfinningalegum þörfum barna sem koma í búðirnar.

100 búðir með 11.313 börnum

Kenneth Wolfe, talsmaður bandaríska heilbrigðis og velferðaryfirvalda, segir stjórnvöld hafa gert samninga um rekstur 100 búða í 17 ríkjum. Í þeim dvelja nú alls 11.313 börn.

27 búðanna í Arizona, Kaliforníu og Texas eru reknar af Southwest Key, sem er langstærsti rekstraraðili slíkra búða. 24.877 börn dvöldu í búðum Southwest Key á síðasta ári og samkvæmt kröfum Southwest Key þarf starfsfólk að vera tvítyngt og á að hljóta 80 stunda þjálfun áður en það fær að vinna með börnunum.

Búðirnar þurfa að fá rekstrarleyfi í hverju ríki fyrir sig og svo gildir einnig um Estrella del Norte, þar sem 300 börn geta dvalið. Í þessari viku voru börnin 287 talsins og 70 þeirra undir 13 ára aldri.

Bandarísk lög kveða á um að landamæraeftirlitið verði að afhenda heilbrigðis- og velferðaryfirvöldum þau börn sem eru ein á ferð innan 72 tíma. Börnin eiga þá að fara til ættingja eða annarra ábyrgðamanna.

Demókratinn og öldungadeildarþingmaðurinn Jeff Merkley gagnrýndi nýlega aðstæður í búðunum, er honum var neitað um að heimsækja Casa Padre búðirnar í Texas, sem Southwest Key rekur einnig. Heilbrigðis- og velferðaryfirvöld segja „engan heimsækja búðirnar án þess að búið sé að tilkynna komu viðkomandi, „jafnvel ekki þeir sem segjast vera öldungadeildarþingmenn“.

Southwest Key bauð fjölmiðla velkomna í Casa Padre búðirnar á miðvikudag og á föstudag í El Cajon búðirnar í Kaliforníu. Ólöglegt var hins vegar að tala við þá sem í búðunum voru eða mynda þá. Casa Padre búðirnar eru staðsettar í gömlu versl­un­ar­rými Walmart í Brownsville í Texas. Dreng­irn­ir sem þar dvelja hafa inn­an við 12 fer­metra svæði fyr­ir sig og eyða um 22 tím­um inn­an­dyra dag hvern. Ljós eru slökkt kl. 21.00 og Jacob So­broff frá MSNBC sjónvarpsstöðinni seg­ir að rýmið, sem kallað er gisti­skýli (e. shelter) sé þó ekk­ert annað en fang­elsi fyr­ir börn.

Börnin allt niður í fjögurra ára gömul

Davidson segist hafa verið fullur vonar er hann hóf störf í Estrella del Norte í febrúar. Börnin sem þá dvöldu þar fengu kynningu á réttindum sínum frá lögfræðisamtökum og hittu reglulega félagsráðgjafa sem fór með mál þeirra. Þá var farið með þau til læknis og tannlæknis ef þörf var á.

Sjálfur kenndi hann ensku og byrjaði að kenna tíma í brasilískum bardagalistum.

Með harðlínustefnu Trump, er það fólk sem kem­ur yfir landa­mær­in í leyf­is­leysi sótt til saka. Séu börn með í för eru þau tek­in af for­eldr­um og/​eða öðrum forráðamönnum líkt og lög­ eru sögð kveða á um. Álagið á búðirnar hefur því aukist mikið og þeim börnum sem eru í uppnámi vegna aðskilnaðar frá foreldrum fer sífellt fjölgandi. Sum þeirra eru allt niður í fjögurra ára gömul.

„Staður sem var áður tímabundin viðkomustaður með þjálfuðu starfsfólki á nú í vanda og er að verða meira og meira að varanlegum búðum og líkari fangelsi,“ segir Davidson.

Þegar brasilísku systkinin komu var farið með þau í kennslustofu og Davidson segir að honum hafi verið sagt að vera þar með þeim af því að það væri ekki nógu margt starfsfólk til að fylgjast með svefnálmunni. Talsmenn Southwest Key neita þessu og segja túlk hafa verið fengin og engin börn hafi sofið í kennslustofu, enda heimili lög ekki slíkt.

Þegar fimm brasilísk börn á aldrinum 5-17 ára komu næsta dag, „þá var alveg ljóst að börnin höfðu ekki hugmynd um hvað var að gerast,“ segir Davidson.

Þau höfðu ekki hugmynd um hvar foreldrar þeirra voru og umsjónarmaður barnanna sagði að það yrði að minnsta kosti vika þangað til búið væri að finna þau og önnur vika til viðbótar þar til hægt væri að tala við þau. Ég sá hvernig þeir voru að klúðra málunum,“ segir hann. „Á þeim tíma var harðlínustefnan komin í fullan gang og maður sá örvæntinguna. Krakkar hlaupandi eftir ganginum, hrópandi á mömmu sína.“

Reyndi sjálfsvíg eftir að vera hafnað

Hann sendi yfirmanni Southwest Key í ríkinu kvörtun og sagðist hafa áhyggjur af auknu álagi á starfsfólk með nýju stefnunni. Yfirmaðurinn lofaði að gera eitthvað í málinu, en ástandið versnaði bara.

„Flestum börnum getum við komist í samband við fjölskyldu sína í heimalandinu eða fjölskyldu eða ábyrgðarmann í Bandaríkjunum innan sólarhrings,“ segir í svörum Southwest Key. „Allar tafir skrifast á að barnið þarf aðstoð við að finna símanúmer fyrir fjölskyldumeðliminn sem á að hringja í.“

Davidson segir starfsfólki þó ganga illa að hafa stjórn á börnunum og ekki sé rétt á málum haldið í þeim tilfellum þar sem grunur leiki á að um fullorðna einstaklinga sé að ræða. Davidson rifjar upp að starfsfólk hafi yfirheyrt dreng sem sagðist vera 13 ára og að hann hefði komið til Bandaríkjanna til að vera hjá föður sínum. Drengurinn var að segja satt, en DNA próf sýndi að maðurinn sem hann taldi vera föður sinn reyndist ekki vera það. Þegar manninum var greint frá niðurstöðum prófananna neitaði hann að hafa meira með drenginn að gera og það gerði líka sá sem reyndist vera líffræðilegur faðir hans.

Þegar að drengurinn komst að sannleikanum tók hann að skaða sjálfan sig og reyndi að taka eigið líf. Hann hefur nú dvalið í búðunum um nokkurra mánaða skeið undir eftirliti og engin lausn á hans máli virðist í sjónmáli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert