Flúðu skelfingu lostin út á akrana

Sýrlensku drengur sem flúði Daraa til svæðis þar sem flóttafólkið …
Sýrlensku drengur sem flúði Daraa til svæðis þar sem flóttafólkið heldur margt hvert fyrir í nágrenni Gólan-hæða. AFP

Stjórnvöld í Sýrlandi hafa hert á loftárásum sínum á og í nágrenni borgarinnar Daraa í suðurhluta landsins í dag. Tugir fjölskyldna hafa lagt á flótta af þessum sökum og óttast er að enn ein stórátakahrinan sé í uppsiglingu, nú þegar rúmlega sjö ár eru liðin frá því að stríðið braust út.

Bashar al-Assad forseti hefur farið með sigur af hólmi í mörgum orrustum í landinu að undanförnu. Nú vill hann ná á ný fullum völdum í suðurhlutanum en þar liggja landamæri Sýrlands að Jórdaníu og Gólan-hæðum sem Ísraelar hafa hernumið.

Herir hans hafa nú ráðist inn í bæi íDaraa-héraði þar sem uppreisnarmenn hafa lengi setið að völdum. Á innan við viku hafa að minnsta kosti 28 almennir borgarar fallið í árásum stjórnarhersins. 

Miklar loftárásir hafa verið gerðar á Daraa síðustu klukkustundirnar.
Miklar loftárásir hafa verið gerðar á Daraa síðustu klukkustundirnar. AFP

Hersveitirnar hafa nú snúið sér að höfuðvígi uppreisnarmanna á svæðinu, borginni Daraa, og hafið loftárásir á nágrenni hennar. Snemma í morgun var m.a. varpað sprengjum á þau svæði sem uppreisnarmenn halda til í.

Yfir 55 eldflaugum var skotið á hverfi uppreisnarmanna frá um miðnætti og í kjölfarið fjórum tunnusprengjum að því er bresku eftirlits- og mannréttindasamtökin Observatory segja. Yfirmaður samtakanna segir þetta vera í fyrsta sinn sem tunnusprengjum sé varpað á Daraa í meira en ár. 

Um hádegisbil hófust árásirnar á borgina á ný og í það skiptið voru það bandamenn Sýrlandshers, Rússar, sem stóðu fyrir þeim. Í kjölfarið streymdu tugir fjölskyldna út úr borginni í örvæntingu sinni.

Margir flúðu út á ólífuakrana í nótt til að leita skjóls en akrarnir eru í útjaðri borgarinnar. Fólkið fór ýmist fótgangandi eða á mótorhjólum og reyndi að skýla sér í litlum kofum sem þar eru eða undir trjánum. „Við vitum ekki hvað gerðist. Við vorum sofandi með börnin þegar allt í einu við heyrðum í sprengjum,“ segirAhmad al-Musalima. „Börnin fóru að skjálfa af ótta.“ Fjölskyldan lagði þá á flótta en talið er að um 20 þúsund borgarbúar hafi flúið síðustu daga. 

Herþyrlur á lofti yfir Daraa.
Herþyrlur á lofti yfir Daraa. AFP

„Við yfirgáfum húsið og vissum svo ekki hvert við ættum að fara,“ segir Musalima. „Við fórum út á akrana á meðan börnin grétu og sprengjunum rigndi.“

 Hópar uppreisnarmanna hafa vesturhluta Daraa á valdi sínu sem og þorp og bæi í næsta nágrenni. Yfirráðasvæði þeirra nær allt að landamærum Jórdaníu, m.a. herstöð sem þeir tóku yfir árið 2014.

Stjórnarherinn ræður hins vegar lögum og lofum í austurhluta Daraa sem og í Sweida-héraði. 

Nokkuð rólegt hefur verið á þessum vígstöðvum undanfarið ár eftir að Rússar, Bandaríkjamenn og Jórdanar gerðu samkomulag um að draga úr átökunum á þessu svæði.

En núna hefur stjórnarherinn í bandalagi við Rússa ákveðið að láta til skarar skríða. Rússar gerðu m.a. árás á herstöðina við landamærin að Jórdaníu. Með því vonast herinn til þess að kljúfa yfirráðasvæði uppreisnarmannanna í tvennt.

Sýrlensk stúlka sem flúði borgina Daraa í flóttamannabúðum við landamæri …
Sýrlensk stúlka sem flúði borgina Daraa í flóttamannabúðum við landamæri Ísraels. AFP

Sprengjuárásir voru gerðar víðar en í Daraa í morgun. Þannig var tuttugu tunnusprengjum varpað í sveitunum austan borgarinnar. 

Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að átök á þessu svæði munu ógna lífi um 750 þúsund manna og hafa hvatt allar stríðandi fylkingar til að virða vopnahléssamkomulagið.

Stjórnvöld í Jórdaníu sögðu í gær að þau gætu ekki tekið við annarri bylgju sýrlenskra flóttamanna en hvergi í heiminum er fleiri flóttamenn frá landinu að finna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert