Óttast um 12 börn í Taílandi

Nokkur hundruð björgunarsveitarmenn hafa verið kallaðir út til þess að koma tólf börnum og knattspyrnuþjálfara þeirra til bjargar en þau hafa verið föst í helli í tvo daga í Taílandi, skammt frá landamærum Búrma.

Reiðhjól og skór barnanna hafa fundist skammt frá hellinum en allt er á floti á þessu svæði vegna monsún-rigninga að undanförnu. Óttast er um afdrif hópsins þar sem eini inngangur hellisins er lokaður vegna vatnavaxta. Börnin eru á aldrinum 11 til 16 ára en þau fóru inn í hellinn eftir fótboltaæfingu á laugardaginn. Þegar þau skiluðu sér ekki heim var haft samband við lögreglu. 

Hellirinn, Tham Luang, er ekki vel þekktur áfangastaður ferðamanna enda mjög afskekktur þrátt fyrir að heimamenn fari þangað oft til þess að heimsækja lítið Búddalíkneski sem þar er. Monsún-tímabilið stendur frá maí fram í október og eru flóð og aurskriður algeng á þeim árstíma.

Reiðhjól barnanna fundust skammt frá hellinum.
Reiðhjól barnanna fundust skammt frá hellinum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert