Ráðgátan um Marree-manninn enn óleyst

Marree-maðurinn í eyðimörkinni.
Marree-maðurinn í eyðimörkinni. Af Wikipedia

Ástralskur athafnamaður býður um hálfa milljón króna fyrir vísbendingar sem gætu leitt til þess að ein stærsta ráðgáta Ástralíu hin síðari ár verði leyst.

Ráðgátan mikla er á hásléttu í eyðimörkinni suður af smábænum Marree. Þar er að finna eitt af stærstu umhverfislistaverkum veraldar; Marree-manninn. Myndin af honum, sem grafin er um 30 sentímetra ofan í jörðina, er engin smásmíði. Hún er um 35 metrar á breidd þar sem hún er breiðust og um 4 kílómetrar á lengd. Línurnar mynda mann sem heldur á priki eða bjúgverpli (boomerang).

Frá því að komið var auga á hana í fyrsta sinn úr flugvél árið 1998 hefur enginn gefið sig fram sem höfundur hennar eða smiður. Síðan þá hefur hins vegar fjöldi kenninga um tilurð hennar skotið upp kollinum.

Ýmsar kenningar komið fram

Athafnamaðurinn Dick Smith, sem sýslar m.a. með raftæki og matvæli, ákvað fyrir nokkru að láta sig málið varða. Á síðustu tveimur árum hefur hann ásamt teymi fólks farið yfir öll gögn sem finnast um málið, m.a. fjöldann allan af kenningum sem settar hafa verið fram. En allt hefur komið fyrir ekki. Enn er á huldu hver stóð að gerð myndarinnar miklu.

Smith telur að hópur manna beri ábyrgð á verkinu. Hann hefur nú ákveðið að bjóða 5.000 Kanadadollara, um 500 þúsund íslenskra króna, hverjum þeim sem getur veitt einhverjar upplýsingar sem leiða munu til afhjúpunar málsins.

„Það voru engin mistök gerð, það voru fagmenn að verki,“ segir hann í samtali við ABC-fréttastofuna. „Ég get ekki séð fyrir mér að einn maður hafi verið að verki, það hefur að minnsta kosti þurft þrjá til fjóra, og það hefur tekið margar vikur að gera þetta. Það er því með ólíkindum að ráðgátan sé ekki leyst tuttugu árum síðar.“

Herinn að verki?

Vinsælasta kenningin er sú að Bandaríkjamaður eða Bandaríkjamenn hafi rist myndina af Marree-manninum í landið. Um leið og verkið uppgötvaðist á sínum tíma voru margar nafnlausar tilkynningar senda á dagblaðið The Advertiser þar sem „stærsta listaverki heims“ var lýst. Strax þótti ljóst að Bandaríkjamaður hefði skrifað tilkynningarnar því málfarið og stafsetningin benti til þess. Fleiri vísbendingar í þessa átt hafa komið fram en Smith og fleiri halda að hér hafi skapari verksins verið að reyna að villa um fyrir fólki.

Önnur kenning tengir Bardius Goldberg, listamann af frumbyggjaættum, við verknaðinn. Hann er sagður hafa játað fyrir vinum sínum að verkið væri hans. Þetta fékkst þó aldrei staðfest og Goldberg lést árið 2002.

Enn aðrar kenningar segja að ástralski herinn beri ábyrgðina og enn aðrir segja verkið hafa verið kveðju frá bandarískum hermönnum sem yfirgáfu herstöð í nágrenninu seint á tíunda áratugnum.

Veðráttan á svæðinu hefur tekið sinn toll af Marree-manninum. Þá hefur engin áhersla verið lögð á að viðhalda honum og útlínurnar eru nú að verða óskýrar. En fyrir um tveimur árum tóku íbúar í nágrenninu sig til og plægðu hann upp að nýju. Þeir vilja halda Marree-manninum og ráðgátunni lifandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert