Hitamet slegið í Svíþjóð

Fólk baðar sig í hitanum í Svíþjóð.
Fólk baðar sig í hitanum í Svíþjóð. AFP

Veðrið hefur verið gott í Svíþjóð að undanförnu og í gær var slegið árshitamet þar í landi en hiti mældist hæstur 33,5 gráður. Veðurblíðan hefur þó haft neikvæðar afleiðingar þar sem víða hafa geisað skógareldar auk þess sem viðvaranir hafa verið gefnar út síðustu daga um slíka hættu vegna þurrks og mikils hita. 

Síðustu daga hefur hitinn aukist og dreift sér um allt landið. Hitinn leiðir til þess að hætta á skógareldum eykst og um helgina varaði sænska veðurstofan, SMHI, við nýjum svæðum þar sem hætta er á skógareldum. Viðvaranir veðurstofunnar skiptast í fyrsta stigs viðvaranir sem eru merki um mjög hátt hitastig og annars stigs viðvaranir, sem eru merki um sérstaklega háan hita og er hæsta viðvörun sem gefin er út. 

Samkvæmt SMHI er nú hætta á skógareldum mjög mikil alls staðar í landinu, nema í Norður-Lapplandi.

Í Austur-Gautlandi, Dölum og Gävleborg er fyrsta stigs viðvörun en í kringum Örebro, Vesturmannaland, Stokkhólm, Uppsali og Suðurmannaland var gefin út annars stigs viðvörun, eða hæsta viðvörun. 

„Í dag er sólríkt og mjög hlýtt á landinu öllu. Hitinn er almennt milli 25 og 30 gráður en í gær var slegið hitamet yfir árið þar sem hiti mældist 33,5 gráður og það er ekki ómögulegt að við sjáum slíkar tölur líka í austurhluta Svíalands,“ segir Erik Rindeskar, veðurfræðingur í samtali við Aftonbladed. 

Við Gävleborg í Miðaustur-Svíþjóð er álag á björgunarsveitir svo mikið vegna hættu á skógareldum að biðlað hefur verið til almennings að hringja ekki á neyðaraðstoð nema um opinn eld sé að ræða. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert