Fá að hitta ættingjana í N-Kóreu undir eftirliti

Hópur suðurkóreskra eldri borgara er nú staddur í Norður-Kóreu til að hitta ættingja sína sem þeir hafa ekki hitt frá því á tímum Kóreustríðsins.

Kóreustríðið, sem stóð yfir á árabilinu 1950-53 klauf Kóreuskagann í tvennt og þeim sem bjuggu á norðurhluta skagans var bannað að yfirgefa svæðið. Kóreustríðinu hefur formlega aldrei lokið, en ríkin tvö hafa skipulagt sambærilega fundi áður í nokkur skipti.

Þetta er þó í fyrsta skipti sl. þrjú ár sem slíkur fundur er haldinn, en það var í kjölfar fundar Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, og Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, sem ákveðið var að efna til slíkra endurfunda á ný.

Þeir Suður-Kóreumenn sem nú fá að heimsækja ættingjana í Norður-Kóreu voru dregnir út í sérstöku happdrætti og er sá elsti sem tekur þátt í endurfundunum 101 árs.

Lee Keum-seom fékk að hitta son sinn Ri Sung Chol …
Lee Keum-seom fékk að hitta son sinn Ri Sung Chol í fyrsta skipti frá Kóreustríðinu. Hann var aðeins fjögurra ára gamall er þau urðu viðskila í ringlulreiðinni við að reyna að flýja. AFP

Í síðasta skipti sem margir hittast

BBC segir fundina verða stutta og að líklegt megi telja að þetta sé í síðasta skipti sem margir þeirra hitti þessa ættingja sína.

Það eru 89 Suður-Kóreumenn sem fá að þessu sinni tækifæri til að hitta 83 ættingja sína í Norður-Kóreu. Hvort ríki um sig hafið valið hundrað einstaklinga, en nokkrir hættu við er þeir fréttu að ættingjarnir sem þeir höfðu vonast til að hitta væru ekki lengur á lífi.

92 ára suðurkóresk kona sagði fréttamönnum að hún væri að fara að hitta son sinn í fyrsta skipti frá því Kóreustríðinu lauk. Lee Keum-seom varð viðskila við fjögurra ára son sinn og eiginmann í ringulreiðinni er þau reyndu að flýja. „Ég þorði ekki að ímynda mér að þessi dagur rynni upp,“ hefur AFP-fréttastofan eftir henni. „Ég vissi ekki einu sinni hvort hann væri enn á lífi.“

„Ég er komin yfir nírætt þannig að ég veit ekki hvenær ég dey,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir Moon Hyun-sook sem var að fara að hitta yngri systur sínar. „Ég er mjög ánægð að hafa verið valin í þetta skipti.“

BBC segir Suður-Kóreubúana ferðast yfir landamærin í rútu. Þeir dvelja síðan í Norður-Kóreu í þrjá daga og fá þar að hitta ættingja sína í nokkrar klukkustundir daglega undir ströngu eftirliti.

Margir koma hlaðnir gjöfum yfir landamærin og hafa tekið með föt, matvæli og lyf fyrir ættingjana í norðri. „Ég tók til nokkur almenn lyf á borð við höfuðverkjatöflur, lyf fyrir meltinguna og fæðubótarefni, sem og daglegar nauðsynjar,“ hefur Reuters eftir Lee Soo-nam, sem átti að fá að hitta eldri bróður sinn.

Það voru miklir fagnaðarfundir þegar þau Jo Hye-do (fyrir miðju), …
Það voru miklir fagnaðarfundir þegar þau Jo Hye-do (fyrir miðju), og Jo Do-jae (t.v.) fengu að hitta systur sína íJo Soon Do sem býr í Norður-Kóreu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert