Fundu heróín fyrir tilviljun

Heróín, ekki það sem hald var lagt á í málinu …
Heróín, ekki það sem hald var lagt á í málinu sem hér er til umfjöllunar. AFP

Þrír menn voru handteknir, þar af einn sem norska lögreglan fékk framseldan frá Austurríki við rannsókn málsins, og sitja tveir þeirra nú í gæsluvarðhaldi í máli sem snýst um fimm kílógrömm af heróíni sem fundust í eldhússkúffu í íbúð í Stovner-hverfinu í Ósló.

Málið kom upp í apríl en greint var frá því fyrst í gær vegna rannsóknarhagsmuna. Þegar lögregla heimsótti Albana á þrítugsaldri í vor til að skoða skilríki hans og pappíra á vegum útlendingaeftirlitsdeildar embættisins fundust munir sem vöktu áhuga lögreglu og grun um fíkniefnamisferli.

Þetta var í íbúð í Sandaker en böndin bárust fljótt að íbúð í Stovner og þegar öll kurl voru komin til grafar þar, eins og Dagbladet greinir frá, stóð lögreglan uppi með rúmlega fimm kílógrömm af heróíni sem fundust í eldhússkúffu ásamt búnaði til vigtunar og pökkunar.

Götuverðmæti efnanna er að sögn Andreas Meeg-Bentzen, lögmanns lögreglunnar, talið liggja á milli þriggja og fimm milljóna norskra króna sem svarar til 38 til 64 milljóna íslenskra króna.

Heróínþurrð eftir stærri fund í fyrra

Hinir grunuðu í málinu eru tveir Albanar og Norðmaður. Hinir tveir fyrsttöldu hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan í vor og var sú dvöl framlengd um fjórar vikur 6. ágúst en reiknað er með ákærum í málinu á haustdögum. Norðmaðurinn er frjáls ferða sinna en á einnig ákæru yfir höfði sér. Tor Even Gjendem, verjandi annars Albananna, vill ekki tjá sig mikið um málið en leyfir Dagbladet þó að hafa eftir ummæli í SMS-skilaboðum þar sem hann segir umbjóðanda sinn lýsa yfir sakleysi í málinu.

Er hér um að ræða annað tveggja mjög stórra heróínmála sem komið hafa upp í Ósló síðustu misseri en það var í febrúar í fyrra sem fíkniefnahundurinn Gustav fann 20 kílógrömm af efninu í bifreið í stórri lögregluaðgerð sem leiddi til handtöku sjö liðsmanna sómalsks fíkniefnahrings eins og TV2 greindi frá á sínum tíma en Dagbladet fjallaði einnig um málið ásamt fleiri norskum fjölmiðlum. Varð í kjölfar málsins nokkurra mánaða heróínþurrð á götum Óslóar sem er sjaldgæft en heróínnotkun er mjög útbreidd í Ósló og voru í Noregi næstflest dauðsföll allra Evrópusambandslanda af völdum ofskömmtunar samkvæmt skýrslu ESB frá 2014. Aðeins í Eistlandi voru þau fleiri á þeim tíma sem skýrslan nær til.

Aðrar fréttir norskra fjölmiðla af nýrra heróínmálinu:

Frá Aftenposten

Frá VG

Frá Dagsavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert