Herða refsingar vegna nála í ávöxtum

Viðurlög við því að eiga við matvæli verða, samkvæmt nýju …
Viðurlög við því að eiga við matvæli verða, samkvæmt nýju löggjöfinni, á pari við viðurlög við glæpum á borð við barnaklám og efnahagsleg hryðjuverk. mbl.is/Árni Torfason

Áströlsk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau muni taka upp harðari refsingar vegna saumnála sem fundist hafa í jarðarberjum, eplum og banönum sem valdið hefur ótta meðal almennings, að því er BBC greinir frá.

Yfirvöld eru nú með til rannsóknar um 100 tilkynningar um saumnálar í jarðarberjum og öðrum ávöxtum. Segir forsætisráðherrann, Scott Morrison, að sakborningarnir geti átt yfir höfði sér allt að 15 ára fangelsi.

Einn unglingur hefur verið handtekinn eftir að hafa viðurkennt að hafa komið nálum fyrir í ávöxtum í því skyni að hrekkja. Segir aðstoðarlögreglustjóri New South Wales, Stuart Smith, að tekið verði á málinu í samræmi við aldur sakborningsins.

Scott Morrisson, forsætisráðherra Ástralíu, sagði í dag að nýju viðurlögin væru á pari við viðurlög við glæpum á borð við barnaklám og efnahagsleg hryðjuverk. „Það sýnir hversu alvarlegum augum stjórnvöld líta málið,“ sagði hann og hvatti þingið til að samþykkja lagafrumvarpið fyrir helgi.

Verkamannaflokkurinn, sem er í stjórnarandstöðu, hefur þegar sagst munu styðja frumvarpið. Samkvæmt núverandi frumvarpi er hámarksrefsing fyrir að menga matvæli 10 ára fangelsi.

Morrison sagði nýju löggjöfinni einnig verða beitt gegn eftirhermum sem komi saumnálum fyrir í matvælum, sem og þeim sem gerist sekir um gabb þessu tengt.

„Þið eruð að stefna lifibrauði duglegra Ástrala í hættu og þið eruð að hræða börn,“ sagði Morrison og sagði þá sem slíkt geri vera raggeitur.

Þrjú fylki hafa heitið 100.000 áströlskum dollurum að launum fyrir upplýsingar sem geti leitt til þess að málið leysist. Í Queensland, þaðan sem fyrstu tilkynningarnar bárust, beinist rannsókn lögreglu nú að birgðakeðju matvælanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert