Rannsaka nálafund í jarðarberjum

Yfirvöld í Ástralíu hafa fyrirskipað rannsókn á fundi saumnála í …
Yfirvöld í Ástralíu hafa fyrirskipað rannsókn á fundi saumnála í jarðarberjum.

Yfirvöld í Ástralíu hafa fyrirskipað rannsókn á fundi saumnála í jarðarberjum, að því er BBC greinir frá. Saumnálar hafa nú fundist í jarðarberjaöskjum í sex fylkjum og hefur málið valdið ótta hjá almenningi í landinu.

Hefur heilbrigðisráðherrann Greg Hunt sagt um „grimmilegan glæp“ að ræða, sem jafngildi árás á almenning, en einn maður hefur verið lagður inn á sjúkrahús eftir að hafa borðað jarðarber með saumnál.

Þegar hafa nokkrar tegundir jarðarberja verið innkallaðar og stærstu matvælaverslanir Nýja-Sjálands hafa hætt sölu á jarðarberjum frá Ástralíu.

Fyrstu fréttir af saumnálum í jarðarberjum komu frá Queensland í síðustu viku, í kjölfarið bárust fregnir af nálum í jarðarberjum í New South Wales, Victoria, Suður-Ástralíu og Tasmaníu. Jarðarberjaræktendur og lögregla hafa sagt að í einhverjum tilfellum kunni að vera um eftirhermur að ræða.

Yfirvöld í Queensland hafa boðið 100.000 ástralska dollara í verðlaun fyrir hvern þann sem getur veitt upplýsingar um málið. „Hvernig getur nokkur heilbrigð manneskja viljað valda ungbarni, barni eða einhverjum öðrum skaða með svo hræðilegum hætti,“ sagði fylkisstjóri Queensland, Annastacia Palaszczuk.

Heilbrigðisyfirvöld hafa hvatt fólk til að skera jarðarber áður en þeirra er neytt.

Samtök jarðarberjaræktenda í Queensland hafa verið með vangaveltur um að ósáttur starfsmaður hafi komið nálum fyrir í jarðarberjunum, en lögregla segir of snemmt að vera með getgátur.

Þá hafa jarðarberjaræktendur lýst yfir áhyggjum af að þetta hafi neikvæð áhrif á sölu á jarðarberjum, en aðaluppskerutíminn stendur nú yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert