Verðlaun boðin fyrir upplýsingar

Stjórnvöld í Queensland í Ástralíu hafa ákveðið að bjóða verðlaun hverjum þeim sem getur veitt upplýsingar um mál þar sem saumnálar hafa fundist í jarðarberjum í matvöruverslunum. 

Fram kemur í frétt AFP að stjórnvöld hafi lýst málinu sem grimmdarlegum glæp en fyrst fréttist af því þegar karlmaður var fluttur á sjúkrahús með mikla magaverki eftir að hafa borðað fersk jarðarber sem hann hafði fest kaup á í matvöruverslun í Queensland.

Fólk hefur síðan birt myndir á samfélagsmiðlum af jarðarberjum með saumnálum í þeim og hafa nokkrar tengundir af áströnslum jarðarberjum í kjölfarið verið teknar úr sölu. Stjórnvöld segja að með þessu framferði sé heilli atvinnugrein stefnt í voða.

Hafa stjórnvöld boðið 100 þúsund ástralska dollara, eða um átta milljónir króna, fyrir upplýsingar sem leitt geti til handtöku og sakfellingar þeirra sem bera ábyrgð á málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert