Faldi andvana barn í læstum skáp í 5 ár

Kona sem fæddi andvana barn gat ekki hugsað sér að …
Kona sem fæddi andvana barn gat ekki hugsað sér að losa sig við líkið og ákvað að geyma það í geymsluskáp í grennd við Uguisudani-járnbrautarstöðina í Tókýó. Ljósmynd/Wikipedia.org

Lögreglan í Tókýó hefur handtekið 49 ára gamla konu sem er grunuð um að hafa geymt lík af barni sínu, sem fæddist andvana, í geymsluskáp í allt að fimm ár.

Emiri Suzaki gaf sig fram við lögreglu og játaði að hafa geymt lík barnsins frá því að það fæddist andvana „fyrir fjórum eða fimm árum síðan.“ Lögreglumenn fundu lík barnsins stuttu seinna í plastpoka í geymsluskáp nálægt Uguisudani-járnbrautarstöðinni í borginni.

Suzaki hafði greitt fyrir notkun á skápnum öll árin. „Ég fylltist skelfingu eftir að hafa fætt andvana barn og geymdi líkið því ég gat ekki hugsað mér að losa mig við barnið,“ sagði Suzaki við lögreglu þegar hún gaf sig fram, að því er fram kemur í Kyodo News.

Hún ákvað að gefa sig fram við lögreglu á mánudag eftir að hún hafði lent í rifrildi við vin sinn á heimili hans. Hún gleymdi lyklinum af skápnum á heimili vinarins og óttaðist hún að upp kæmist um leyndarmálið.

Ekki liggur fyrir hvers vegna barnið fæddist andvana.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert