Enginn öruggur á svæðinu

Marc Sutton var 34 ára gamall þegar hann var skotinn …
Marc Sutton var 34 ára gamall þegar hann var skotinn til bana rétt við bæinn Les Gets í Frakklandi, skammt frá landamærum Sviss. Kort/Google

„Þú ert hvergi óhultur“ í þeim hluta frönsku Alpanna þar sem velskur karlmaður á fertugsaldri var skotinn til bana á laugardagskvöldið. Þetta hefur BBC eftir vinkonu hins látna.

Marc Sutton var 34 ára gamall þegar hann var skotinn til bana rétt við bæinn Les Gets í Frakklandi, skammt frá landamærum Sviss.

„Þetta kom fyrir Marc [Sutton] en hefði getað komið fyrir hvern sem er,“ sagði Kate Downs, vinkona Sutton.

Áður hafði verið greint frá því að Sutton hafi sést vel og verið á þekktum fjallahjólastíg þegar 22 ára gamall veiðimaður skaut hann. Skotmaðurinn var fluttur í áfalli á sjúkrahús en málið er rannsakað sem manndráp.

Tímabundið bann hefur verið sett við veiðum á Montri­ond-svæðinu eftir dauðsfallið.

„Samfélagið okkar hefur barist fyrir breytingum, í samvinnu við veiðimenn á svæðinu. Í könnun meðal níu þúsund íbúa sem dagblað á svæðinu gerði kom fram að 76% vildu að veiðar yrðu bannaðar um helgar,“ sagði Downs.

Hún sagði að fólk væri hvergi óhult á þessum slóðum. „Marc var á vinsælli hjólaleið fyrir utan veiðisvæðið. Í fyrra var kona skotin til bana þar sem hún lá í sólbaði í garðinum sínum og árið 2015 lést skokkari eftir að veiðimaður skaut hana,“ sagði Downs.

„Vinir hans geta núna séð til þess að svona hlutir gerist ekki aftur og að allir njóti fjallanna, eins og hann gerði.“

Nánar er fjallað um málið á vef BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert