Mongólar bjóða Kim Jong-un velkominn

Kim Jong Un hefur fengið heimboð.
Kim Jong Un hefur fengið heimboð. AFP

Mongólar hafa boðið Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, að heimsækja höfuðborg lands síns. Stjórnvöld í Mongólíu voru eitt sinn vongóð um að sögulegur fundur Kims og Donalds Trump Bandaríkjaforseta yrði haldinn þar í landi. Fundurinn fór hins vegar fram í Singapúr í júní.

Boðið kemur í kjölfar fregna af því að líkur eru taldar á að Kim og Trump ætli að hittast aftur. Enn hefur hvorki stund né staður verið ákveðinn.

Skrifstofa Khaltmaa Battulga, forseta Mongólíu, segir að boðið hafi verið sent Kim þann 10. október. Í því kemur fram að Kim sé velkominn í  heimsókn hvenær sem honum henti. 

Mongólar höfðu boðist til að halda fund Trumps og Kim í júní en að endingu var ákveðið að hann skyldi fara fram í Singapúr. 

Trump greindi frá því í síðustu viku að þrír til fjórir staðir kæmu til greina. Hann bætti svo við að líklega yrði aftur fundað í Singapúr. 

Kim Jong-un er heimakær og fer ekki oft útfyrir landsteinana til fundar við þjóðhöfðingja. Frá því að hann tók við völdum árið 2011 hefur hann heimsótt Kína þrisvar og er það eina utanlandsferð hans í þeim tilgangi að hitta stjórnvöld annarra ríkja sem vitað er um, fyrir utan fundinn með Trump.

Hann hefur hitt forseta Suður-Kóreu en fundur þeirra fór fram á hlutlausasvæðinu á milli ríkjanna á Kóreuskaga.

Mongólía er milli Kína og Rússlands og eru stjórnvöld þar sögð eiga í nokkurn veginn eðlilegu sambandi við stjórnvöld í Norður-Kóreu. 

Kim Il Sung, afi Kims Jong-un og fyrrverandi einræðisherra Norður-Kóreu, heimsótti Mongólíu árið 1988 er það var enn hluti af Sovétríkjunum. 

Í október 2013 heimsótti þáverandi forseti Mongólíu Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, og var þá fyrsti þjóðarleiðtoginn til að hitta Kim Jong-un eftir að hann tók við völdum af föður sínum, Kim Jong Il tveimur árum áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert