„Sýnir merki um skort á dómgreind“

Gorbachev varar Trump við að grafa undan þeirri vinnu sem …
Gorbachev varar Trump við að grafa undan þeirri vinnu sem lögð hefur verið í kjarnorkuafvopnun. AFP

Mikhail Gorbachev, fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, gagnrýnir harðlega það sem hann segir óskynsamlega ákvörðun Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að rifta afvopnunarsamkomulagi við Rússa sem hann og Ronald Regan, þáverandi Bandaríkjaforseti, undirrituðu í kalda stríðinu, árið árið 1987. AFP-fréttastofan greinir frá.

„Er virkilega svona erfitt að skilja að það rifta þessu samkomulagi sýnir merki um skort á dómgreind,“ sagði hinn 87 ára Gorbachev í viðtali við Interfax-fréttastofuna.

„Að rifta slíku samkomulagi eru mistök,“ sagði hann og ítrekaði að embættismenn mættu alls ekki rifta eldri afvopnunarsamningum.

„Alla samninga sem miða að kjarnorkuafvopnun og takmörkun kjarnavopna verður að varðveita til að bjarga lífi á jörðinni,“ sagði hann jafnframt.

Gorbachev varaði Trump einnig við því að áform hans myndu grafa undan þeirri miklu vinnu sem hefði verið lögð í að ná fram kjarnorkuafvopnun af hálfu Sovétríkjanna og Bandaríkjanna.

Sergei Ryabkov, aðstoðarmaður utanríkisráðherra Rússa, hafði áður sagt það hættulegt skref að rifta samkomulaginu. Það yrði fordæmt af alþjóðasamfélaginu.

Trump til­kynnti það í gær­kvöldi að hann ætlaði að rifta svo­kölluðum INF-af­vopn­un­ar­samn­ingi sem Ronald Reg­an, þáver­andi for­seti Banda­ríkj­anna, og Mik­hail Gor­bachev, sem var leiðtogi Sov­ét­ríkj­anna, und­ir­rituðu í Washingt­on árið 1987 en þeir höfðu fundað í Höfða í Reykja­vík árið áður.

Sagði Trump á fundi með frétta­mönn­um að Rúss­ar hefðu „brotið gegn“ sam­komu­lag­inu sem legg­ur bann við meðallang­dræg­um eld­flaug­um. Bætti hann við að Banda­rík­in muni ekki leyfa Rúss­um að að fram­leiða slík vopn á meðan þau megi það ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert