Trump ætlar að rifta afvopnunarsamningi við Rússa

Heræfing rússneska hersins í Síberíu í sumar. Mynd úr safni.
Heræfing rússneska hersins í Síberíu í sumar. Mynd úr safni. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í kvöld að hann ætli að rifta svokölluðu INF- afvopnunarsamkomulagi við Rússa, sem þeir Ronald Reagan, þáverandi forseti Bandaríkjanna og Mikhail Gorbachev, sem var leiðtogi Sovétríkjanna, undirrituðu í Washington 1987, eftir að hafa fundað í Höfða í Reykjavík árið áður.

Sagði Trump á fundi með fréttamönnum að Rússar hefðu „brotið gegn“ samkomulaginu sem leggur bann við meðallangdrægum eldflaugum. Bætti hann við að Bandaríkin muni ekki leyfa Rússum að að framleiða slík vopn á meðan að þau megi það ekki.

„Ég veit ekki af hverju Barack Obama Bandaríkjaforseti samdi ekki að nýju eða rifti samningnum. Þeir eru búnir að brjóta gegn honum árum saman,“ hefur BBC eftir forsetanum.

Obama sakaði rússneska ráðamenn árið 2014 um að brjóta gegn samninginum, eftir að þeir gerðu meintar eldflauga prófanir.

Fullyrða bandarískir ráðamenn að Rússar hafi þróað nýja gerð meðaldrægra eldflauga, Novator 9M729, í trássi við samkomulagið. Eru slíkar flaugar sagðar gera Rússum kleift að gera árás á ríki NATÓ með litlum fyrirvara.

BBC segir Rússa aðeins hafa tjáð sig um þessar nýju eldflaugar í því skyni að neita því að þær brjóti gegn samkomulaginu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert