Börn ákærð fyrir að myrða útigangsmann

Drengirnir notuðu meðal annars björgunarhring og umferðarkeilu til að slá …
Drengirnir notuðu meðal annars björgunarhring og umferðarkeilu til að slá manninn. Ljósmynd/Twitter

16 ára sænskur drengur hefur verið ákærður fyrir að hafa orðið heimilislausum manni að bana í bænum Huskvarna í Smálöndum Svíþjóðar á ágústkvöldi í sumar. Fyrr um kvöldið hafði hópur unglinga verið samankominn í almenningsgarðinum og gert sér að leik að áreita manninn.

Það var ekki óvanalegt. Í vitnisburði annarra barna úr bænum, sem sænska ríkisútvarpið greinir frá, kemur fram að maðurinn hafi verið lagður í einelti af hópi unglinga um tveggja ára skeið. Á endanum fóru þó allir heim þetta kvöld, nema tveir: 16 ára drengurinn og 14 ára félagi hans, sem hefur ekki náð sakhæfisaldri. 

Þekktur meðal bæjarbúa

Rúmir þrír mánuðir eru liðnir síðan Gica, Rúmeni á fimmtugsaldri, fannst látinn í almenningsgarði í bænum. Garðurinn var það næsta sem komst heimili hans, en síðustu átta árin hafði hann séð fyrir sér með betli og dósasöfnun, auk þess að leita reglulega á náðir hjálparstofnunar kirkjunnar. Hann var þekktur í bænum, sem telur aðeins um 20.000 manns, og fannst jafnan við verslunarmiðstöð bæjarins.

Lík Gica hefur verið sent til Rúmeníu eftir að 134.000 sænskar krónur (um 1,8 milljónir íslenskar, á gengi dagsins) söfnuðust fyrir tilstilli hjálparstofnunar kirkjunnar.

Huskvarna er útjaðri borgarinnar Jönköping í Smálöndum.
Huskvarna er útjaðri borgarinnar Jönköping í Smálöndum. Ljósmynd/Pixabay

Drengjunum, 16 og 14 ára, er gefið að sök að hafa veist að Gica með björgunarhring og umferðarkeilu að vopni og látið höggin dynja á höfði og líkama hans með þeim afleiðingum að hann lést. Um þrjár vikur liðu frá morðinu og þar til lögreglan komst á snoðir um drengina. Sá eldri var færður í gæsluvarðhald, en hinn er í umsjá félagsmálayfirvalda. 

Lögregla hefur greint frá því að meðal sönnunargagna séu myndbönd en ekki fylgir sögunni hvort þau voru tekin fyrr um kvöldið, meðan önnur börn voru á svæðinu, eða hvort hinir ákærðu eru taldir hafa tekið upp verknaðinn sjálfir. 

Sakhæfisaldur í Svíþjóð er 15 ár, rétt eins og á Íslandi, og verður sá yngri því ekki dæmdur til refsingar. Dómstólar munu þó engu að síður úrskurða um sekt hans og má ætla að barnaverndaryfirvöld láti hann ekki úr augsýn næstu árin.

Ljósmynd/Pixabay
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert