16 ára í gæsluvarðhaldi

Frá Huskvarna.
Frá Huskvarna. Wikipedia

Sextán ára unglingur er í gæsluvarðhaldi grunaður um að hafa myrt heimilislausan mann frá Rúmeníu í Svíþjóð. Annar drengur, sem er yngri en 15 ára og því ekki sakhæfur, er einnig grunaður um aðild að morðinu.

Maðurinn, Gheorge Hortolomei-Lupu (Gica), fannst látinn í garði í Huskvarna, sem er í úthverfi Jönköping í Smálöndum, fyrr í mánuðinum. Viku eftir andlát hans hóf lögregla morðrannsókn eftir að niðurstaða réttarmeinarannsóknar lá fyrir.

Meðal annars rannsakaði lögreglan myndskeið sem fóru víða á samfélagsmiðlum þar sem unglingar sjást berja og áreita manninn í garðinum.

Á mánudag handtók lögreglan 16 ára gamlan sænskan pilt sem býr í Huskvarna vegna málsins en að sögn lögmanns hans neitar pilturinn sök. Hann hefur nú verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hinn drengurinn er einnig grunaður um að hafa myrt manninn en vegna þess hversu ungur hann er þá er ekki hægt að ákæra hann fyrir morð.

Tveir aðrir drengir, sem báðir eru yngri en 15 ára, hafa verið yfirheyrðir af lögreglu. Þeir eru grunaðir um að hafa ráðist á eða áreitt manninn. „Við höfum upplýsingar um hvað gerðist,“ segir yfirmaður rannsóknarinnar, Stefan Sundling, í viðtali við SVT.

Gica kom til Svíþjóðar fyrir fjórum árum en hann bjó áður í bænum Bacau í Rúmeníu. Þegar hann missti vinnuna í prentsmiðju og skildi skömmu síðar yfirgaf hann Rúmeníu og flakkaði á milli nokkurra ríkja Evrópusambandsins áður en hann settist að í Svíþjóð.

Hann vann meðal annars við ávaxtatínslu og safnaði flöskum auk þess að betla á Jönköping-Huskvarna-svæðinu. Hann fékk meðal annars aðstoð frá kristilegum samtökum á svæðinu, Kyrkhjälpen, en samtökin styðja við bakið á heimilislausum á svæðinu. Hann var 48 ára gamall þegar hann lést.

Fólk er mjög slegið yfir morðinu enda virðast allir sammála um að Gica hafi verið hvers manns hugljúfi sem aldrei gerði flugu mein. 

SVT

mbl.is
Fágætar vínilplötur í Kolaportinu!!
Mikið úrval af fágætum vínilplötum í Kolaportinu við gluggavegg miðjan sjávarmeg...
Húsaviðgerðir
https://www.husco.is...
Bókhald
Bókari með reynslu úr bankageiranum og vinnu á bókhaldsstofu, getur tekið að sér...
Nokkrar notaðar saumavélar til sölu !!
Nokkrar tegundir, ýmsar gerðir. Allar ástandsskoðaðar og prófaðar af fagmanni. V...