Obama-hjónin hala inn tekjum

Útgáfusamningurinn sem hjónin gerðu vegna ævisagna sinna var sá dýrasti …
Útgáfusamningurinn sem hjónin gerðu vegna ævisagna sinna var sá dýrasti sem gerður hefur verið. AFP

Forsetahjónin fyrrverandi, Barack og Michelle Obama, eru á góðri leið með að verða bandarískir milljarðamæringar, en æviágrip forsetafrúarinnar fyrrverandi kom út í síðustu viku. Þegar hjónin yfirgáfu Hvíta húsið fyrir um tveimur árum síðan gerðu þau útgáfusamning vegna ævisagna þeirra beggja sem hljóðaði upp á 65 milljónir Bandaríkjadala, eða rétt rúma átta milljarða íslenskra króna á gengi dagsins í dag.

New York Post greinir frá þessu, en hjónin hafa einnig gert 50 milljóna dala samning við streymisrisann Netflix. Þá er búist við að Michelle Obama muni hala inn milljónum dala til viðbótar þegar hún fer til tíu bandarískra borga og kynnir ævisögu sína.

Þegar Michelle Obama heldur ræður fyrir almenning tekur hún 225 þúsund Bandaríkjadali fyrir skiptið, eða tæpar 28 milljónir íslenskra króna, en eiginmaður hennar þénar 400 þúsund dali, tæpar 50 milljónir.

Tímarit Forbes hefur reiknað út að hjónin hafi þénað 20,5 milljónir dala frá því að Obama varð öldungadeildarþingmaður og þar til þau yfirgáfu Hvíta húsið, en hjónin eru metin á yfir 130 milljónir dala, eða rúma 16 milljarða króna.

Útgáfusamningurinn sem hjónin gerðu vegna ævisagna sinna var sá dýrasti sem gerður hefur verið vegna útgáfu æviágripa.

Þá eru forsetalaun Obama enn ótalin, en hann fær greiddar um 25 milljónir íslenskra króna árlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert