Myrtur eftir útgáfuboð

Nedim Yasar var skotinn til bana í gærkvöldi.
Nedim Yasar var skotinn til bana í gærkvöldi. AFP

Fyrrverandi leiðtogi dansks glæpagengis, Nedim Yasar, sem er að gefa út æviminningar sínar, var skotinn til bana þegar hann kom úr útgáfuhófinu í Kaupmannahöfn á mánudagskvöldið. Bókin, sem kom út í gær, fjallar um það hvernig hann yfirgaf heim skipulagðrar glæpastarfsemi.

Nedim Yasar var skotinn til bana við Hejrevej í norðvesturhluta Kaupmannahafnar um klukkan 19:30 að staðartíma á mánudagskvöldið, samkvæmt tilkynningu frá dönsku lögreglunni í gærkvöldi.

Morðinginn, sem var svartklæddur, flúði fótgangandi af vettvangi. Í gær kom út bók Yasars, Rødder, þar sem hann fjallar um líf sitt en hann yfirgaf glæpasamtökin Los Guerreros  árið 2012. Í fyrra var gerð tilraun til þess að drepa hann, að því er segir í dönskum fjölmiðlum. Danska ríkisútvarpið segir að það hafi heimildir fyrir því að hann hafi verið einn á ferð þegar hann var skotinn. 

Lögreglan á vettvangi morðsins en Nedim Yasar var skotinn til …
Lögreglan á vettvangi morðsins en Nedim Yasar var skotinn til bana í Kaupmannahöfn í gærkvöldi. AFP

Lögregla leitar vitna að skotárásinni en morðinginn skaut að minnsta kosti tveimur skotum á Yasar. 

Yasar, sem var 31 árs að aldri, var fæddur í Tyrklandi en flutti til Danmerkur þegar hann var fjögurra ára gamall. Hann var ungur að árum þegar hann gekk til liðs við glæpasamtök en Los Guerreros-samtökin eru þekkt fyrir eiturlyfjasölu í Danmörku. Þegar hann fékk að vita að hann væri að verða faðir árið 2012 ákvað hann að yfirgefa líf glæpamannsins og fara í meðferð fyrir glæpamenn sem vilja yfirgefa þann heim.

Eftir meðferð fór hann að starfa sem leiðbeinandi ungs fólks, Røde Kors, og varð þekktur fyrir útvarpsþætti á Radio24syv.

Marie Louise Toksvig skrifar endurminningar Yasars og þar er fjallað um vegferð hans á leiðinni út úr heimi glæpa.

Dómsmálaráðherra Danmerkur, Søren Pape Poulsen, fjallar á Twitter um morðið á Yasar og tilgangsleysið. „Ég hitti Nedim einu sinni. Ég hitti mann sem vildi það eitt að byggja upp nýtt líf og veita öðrum tilgang. Ég sendi vinum hans og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur,“ skrifar hann á Twitter.

DR

Politiken

Mjög mikið er fjallað um líf Yasar í dönskum fjölmiðlum í gærkvöldi og í morgun. Politiken lýsir því hvernig hann hafi náð að forða sér út úr heimi glæpamannsins en á sama tíma hafi hann óttast um hefnd fyrrverandi bræðra úr undirheiminum fyrir svikin.

Hann varð ítrekað fyrir árásum á síðustu árum enYasar var ungur að árum þegar ljóst var hvað biði hans.Yasar ólst upp íBallerup hverfinu og var ítrekað rekinn úr tímum í skóla. Hann var endanlega rekinn eftir að hafa ráðist á kennara sinn.

Bók Nedim Yasar og Marie-Louise Toksvig kom út í gær.
Bók Nedim Yasar og Marie-Louise Toksvig kom út í gær. AFP

Hann hékk ásamt fleiri pörupiltum fyrir utan félagsmiðstöð í hverfinu en í stað þess að notfæra sér það starf sem þar fór fram áreittu þeir ungmenni sem þar voru, rændu og rupluðu.

Þegar hann var 16 ára eignaðist hann sinn fyrsta BMW en peningana fyrir bílnum fékk hann fyrir sölu á eiturlyfjum. Hann var 17 ára þegar hann var fyrst dæmdur í fangelsi. Þá fyrir tilraun til vopnaðs ráns. Leiðin var greið inn á glæpabrautina og stýrði hann hasssölu Los Guerreros á ákveðnum svæðum. Eins tók hann að sér handrukkanir. Næstu árin voru glæpasamtökin fjölskylda hans en árið 2012 ákvað hann að gera breytingu þar á og tók þátt í meðferðarúrræði á vegum lögreglunnar fyrir fólk sem vill komast á beinu brautina að nýju.

Að sögn lögreglu leitaðiNedimYasar til hennar í ágúst í fyrra vegna þess að reynt var að drepa hann. Í kjölfarið fékk hann neyðarhnapp frá lögreglunni en var ekki með hann á sér þegar hann var skotinn til bana á mánudagskvöldið. 

Danski fáninn í hálfa stöng - húsnæði Radio24syv í Kaupmannahöfn.
Danski fáninn í hálfa stöng - húsnæði Radio24syv í Kaupmannahöfn. AFP

Nedim Yasar stýrði útvarpsþættinum með blaðamanninum Toksvig sem skrifar með honum æviminningar. Í þættinum fjölluðu þau einkum um málefni tengd glæpum og lögreglu. Yasar var oft fenginn til þess að segja frá lífi sínu og segir í frétt DR að það sé mjög sjaldgæft að fyrrverandi glæpamenn þori að koma jafn oft opinberlega fram og tjá sig svo opinskátt. 

Bæði í bókinni og í viðtölum að undanförnu kemur fram að Yasar óttaðist mjög um líf sitt. Í grein í Extra Bladet um helgina kom fram að í fyrra hafi maður reynt að stinga hann til bana á heimili hans. Hann lýstir því í viðtalinu að hann megi aldrei gleyma árvekninni annars sé voðinn vís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert