Engin gæludýr í þýska jólapakka

Ákvörðun um að taka að sér gæludýr ætti ekki að …
Ákvörðun um að taka að sér gæludýr ætti ekki að vera léttvæg. mbl.is/Golli

Þýsk dýraathvörf hafa ákveðið að loka tímabundið fyrir það að hægt verði að taka að sér gæludýr fyrir jólahátíðina. Tilgangurinn er að koma í veg fyrir skyndiákvarðanir um að gefa gæludýr í jólagjöf. Fjöldi athvarfa hefur gefið út tilkynningar þess efnis að engin dýr verði afhent fram að jólum.

Meðal þeirra er dýraathvarfið í Berlín, sem er það stærsta í Evrópu. Ákvörðunin var tekin til þess að koma í veg fyrir að dýrum yrði skilað aftur eftir jólahátíðina. „Dýr eru lifandi verur með þarfir og tilfinningar. Þau henta ekki sem óvæntar gjafir,“ segir í tilkynningu frá dýraathvarfinu í Berlín.

Fjölskyldur geti sótt dýrin í janúar

Stuðningsfólk tímabundna bannsins segir vandamálið vera að fjöldi fólks tekur ákvörðun á síðustu stundu um að gefa gæludýr í jólagjöf.

„Ákvörðun um að taka að sér gæludýr ætti ekki að vera léttvæg og öll fjölskyldan þarf að vera með í ákvörðunarferlinu,“ segir Claudia Hämmerling hjá dýraverndarsamtökunum í Berlín. Flest dýraathvörf verða þó opin fram að jólum og gefst fjölskyldum tækifæri til að skoða dýrin. Þau þurfa þó að koma aftur í janúar, ákveði þau að taka dýrið með sér heim.

Ekki eru allir sammála um ágæti algers banns við því að taka dýr að sér, en bresku dýraverndarsamtökin RSPCA segja mikilvægt að sá sem gefa á gæludýr verði að vera tilbúinn til þess að annast það.

Hjá sumum séu jólin tími mikils yss og þyss, sem geri gæludýrum erfitt um vik að venjast nýjum heimilum, en hjá öðrum séu jólin rólegur tími sem geti hentað vel til þess að bjóða nýjan íbúa velkominn í fjölskylduna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert