Nýjar ásakanir á hendur Rush

Geoffrey Rush.
Geoffrey Rush. AFP

Ástralski leikarinn Geoffrey Rush var í dag sakaður um ósæmilega hegðun í garð leikkonu en þetta er önnur leikkonan sem sakar leikarann um ósæmilega hegðun. Hann segir ekkert hæft í ásökunum og er í málaferlum við ástralskt dagblað vegna fyrri ásakananna. 

Rush, sem er á sjötugsaldri, er  þekktur fyrir leik í kvikmyndum á borð við Shine, sem hann hreppti óskarsverðlaun fyrir, Shakespeare in Love, Quills og The King's Speech.

Ástralska leikkonan Yael Stone, sem leikur meðal annars í þáttaröðinni  Orange is the New Black á Netflix, segir í viðtali við New York Times að Rush hafi dansað nakinn fyrir framan hana í búningsklefanum þegar þau léku saman í leikritinu The Diary of a Madman á árunum 2010 og 2011. Stone, sem er 33 ára gömul, segir að leikarinn hafi notað spegil til þess að geta fylgst með henni í sturtu og sent henni erótísk SMS. 

Rush segir þetta rangt og hlutirnir hafi verið slitnir úr samhengi. Hins vegar sé ljóst að hún hafi ekki verið sátt við hegðun hans og þann anda sem honum fylgi. Hann harmi og biðji afsökunar á því ef þetta hafi truflað hana og valdið vanlíðan. Það hafi alls ekki verið ætlun hans.

Stone segir í samtali við ástralska sjónvarpið að að ástæðan fyrir því að hún sagði ekki neitt á þessum tíma hafi verið vegna þess að hún hafi óttast um feril sinn.

Hún segir í viðtali við ABC í dag að þetta hafi verið afar vond upplifun fyrir hana að verða fyrir þessu af hálfu manns sem var stjarna í leikhús- og kvikmyndaheiminum og hafði hlotið nánast öll verðlaun sem hægt var að fá fyrir leik. „Ég var bara þarna til að þjóna honum og ég tók það sennilega of langt og of bókstaflega,“ segir Stone í viðtalinu.

Rush hefur höfðað skaðabótamál gegn Daily Telegraph í Sydney vegna forsíðufréttar í nóvember í fyrra þar sem fjallað var um kvartanir á hendur honum af hálfu samstarfsfólks í leikhúsinu á uppfærslu Sydney Theatre Company á Lé konungi árið 2015.

Rush krefst skaðabóta frá dagblaðinu vegna fjölda greina sem birtust um málið í nóvember og desember í fyrra. Hann segir þær rógburð og draga upp mynd af honum sem öfugugga og brotamanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka