Breski herinn í viðbragðsstöðu

Gavin Williamson, varnarmálaráðherra Bretlands.
Gavin Williamson, varnarmálaráðherra Bretlands. AFP

Ríkisstjórn Bretlands hefur ákveðið að setja breska herinn í viðbragðsstöðu í tengslum við áform stjórnvalda um að stórauka undirbúning fyrir þann möguleika að landið yfirgefi Evrópusambandið án þess að samið verði sérstaklega um það við sambandið.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að herinn verði til taks verði þörf fyrir stuðning við að halda uppi röð og reglu. Gavin Williamson, varnarmálaráðherra Bretlands, sagði í neðri deild breska þingsins í dag að 3.500 hermenn yrðu í viðbragðsstöðu reiðubúnir að styðja við opinberar stofnanir við að takast á við erfiðleika sem gætu komið upp.

Ráðherrum í ríkisstjórninni var greint frá því á fundi hennar í dag að litið væri nú svo á að útganga úr Evrópusambandinu án samnings yrði sjálfkrafa raunin ef ekki tækist að semja við sambandið. Gert er ráð fyrir að Bretland yfirgefi Evrópusambandið 29. mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert