Myrti vin sinn og bútaði líkið í sundur

Maðurinn, sem ekki hefur verið nafngreindur, hefur viðurkennt að hafa …
Maðurinn, sem ekki hefur verið nafngreindur, hefur viðurkennt að hafa myrt fórnarlambið sem var 45 ára gamall vinur hans. Myndin er af frönskum lögreglubíl. Ljósmynd/Wikipedia.org

Franskur karlmaður, sem myrti vin sinn, bútaði lík hans niður og losaði sig við líkamsleifarnar, segist hafa gripið til þess ráðs eftir að vinurinn hafi neitað að láta hann hafa peninga fyrir eiturlyfjum. Fjallað er um málið í frétt AFP.

Fram kemur í fréttinni að upp hafi komist um morðið, sem framið var í bænum Issoire í Frakklandi, þegar pípulagningamaður var kallaður út í síðustu viku eftir að salerni stíflaðist á hárgreiðslustofu. Komu þá líkamsleifar í ljós.

Lögreglan leitaði í íbúð fyrir ofan hárgreiðslustofuna og fann þar blóð á veggjum og í gluggatjöldum, blóðuga sög og heila og lifur úr manni í frystiskáp. Borin voru kennsl á fórnarlambið og fannst einnig blóð heima hjá því.

Morðinginn, sem er 26 ára gamall atvinnulaus fíkniefnaneytandi, var síðan handtekinn þegar hann sneri heim til sín en á upptöku úr eftirlitsmyndavél sást hann losa við vig blóðuga poka í ruslagám. Maðurinn á að baki nokkurn afbrotaferil.

Maðurinn, sem ekki hefur verið nafngreindur, hefur viðurkennt að hafa myrt fórnarlambið sem var 45 ára gamall vinur hans. Gaf hann, sem fyrr segir, þá skýringu að vinurinn hafi ekki viljað láta hann fá háa fjárhæð svo hann gæti keypt eiturlyf.

Fram kemur í fréttinni að maðurinn sé með geðklofa, hafi verið tvisvar sinnum lagður inn á sjúkrahús vegna andlegra veikinda sinna og hafi nýverið hætt að taka lyfin sín. Fórnarlambið, sem einnig var fíkniefnaneytandi og hefur ekki heldur verið nefngreint, erfði nýverið háar fjárhæðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert