Fæðingum fækkar í Kína

Kona gengur með barnavagn fyrir utan tískuvöruverslun í Peking á …
Kona gengur með barnavagn fyrir utan tískuvöruverslun í Peking á dögunum. AFP

Um það bil tveimur milljónum færri börn fæddust í Kína í fyrra en árið 2017, samkvæmt nýjum opinberum tölum þar í landi, sem vekja enn upp áhyggjur af hækkandi meðalaldri kínversku þjóðarinnar.

Samkvæmt tölum frá kínversku hagstofunni fæddust 15,23 milljónir barna í Kína í fyrra, á meðan að 9,93 milljónir Kínverja létust.

AFP-fréttaveitan greinir frá því í frétt sinni um málið að þessar nýju tölur staðfesti ótta margra eftir að tölur yfir fæðingar í einstaka héruðum og borgum voru gerðar opinberar undir lok síðasta árs og sýndu nokkurn samdrátt.

Áratugum saman var svokölluð einbirnisstefna við lýði í Kína, til þess að stemma stigu við fólksfjölgun, en fallið var frá henni í árslok 2015 og kínverskum pörum leyft að eignast tvö börn. Þetta var meðal annars gert til þess að bregðast við hækkandi meðalaldri þjóðarinnar og því að vinnandi höndum fækkar.

Alls voru 897,3 milljónir Kínverja á aldrinum 16-59 ára í fyrra, 4,7 milljónum færri en árið 2017, en alls búa nú 1.395 milljónir manna í þessu fjölmennasta ríki veraldar.

Búist er við því að Kínverjum á vinnumarkaðsaldri fækki um 23% til ársins 2050.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert