YouTube-mamma ákærð fyrir barnaníð

Michelle Hackney er sökuð um að hafa svelt börnin og …
Michelle Hackney er sökuð um að hafa svelt börnin og notað á þau piparúða, auk þess að berja þau og einangra. Ljósmynd/Lögreglan í Penal-sýslu

Bandarísk kona, sem lét sjö börn sem hún ættleiddi reglulega leika ofurhetjur á YouTube-rás fjölskyldunnar hefur nú verið ákærð fyrir að beita börnin ofbeldi.

BBC segir lögreglu hafa handtekið konuna, Michelle Hackney, og tvo fullorðna syni hennar á föstudag. Sjálf neitar Hackney öllum ásökunum.

Börnin komu reglulega fram á rásinni Fantastic Adventures og voru þá íklædd ofurhetjubúningum. Rásin er með yfir 700.000 áskrifendur og var nýtt myndband birt í hverri viku sem sýndi börn í ævintýralegum aðstæðum með teiknimyndabrellum sem tákna ofurhetjukrafta þeirra.

Washington Post segir börnin, sem voru á aldrinum 6-15 ára, nú hafa verið tekin úr umsjá Hackney, en lögregla sakar hana um að hafa svelt börnin og notað á þau piparúða, auk þess að berja þau og einangra. Þá fullyrða yfirvöld að börnin hafi verið neydd til að fara í ísböð og að þá hafi að minnsta kosti einn drengjanna sætt misþyrmingum á kynfærum.

Eitt barnanna er sagt hafa fundist inni í skáp þegar lögregla kom á staðinn.

„Lögreglumenn fundu sex önnur börn sem virtust vera vannærð. Þau voru föl, með dökka bauga undir augum, horuð og sögðust vera bæði þyrst og svöng,“ segir í skýrslu lögreglu.  

Hefur Hackney verið ákærð fyrir að misþyrma börnunum sjö, fyrir barnaníð í tveimur tilfellum sem hún neitar og fyrir að halda fimm þeirra nauðugum.

Eru synir hennar Logan og Ryan Hackney ákærðir fyrir að láta hjá líða að tilkynna um málið.

Forsvarsmenn YouTube segja að frá því að Hackney var handtekin hafi verið komið í veg fyrir að YouTube-rásin hagnist á upptökunum sem þar voru birtar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert