Rússar senda herlið og vopn til Venesúela

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, flytur hér ávarp á svæði flughersins …
Nicolas Maduro, forseti Venesúela, flytur hér ávarp á svæði flughersins í Maracay. AFP

Tvær rússneskar herflugvélar sem lentu á aðalflugvelli Venesúela á laugardag eru sagðar hafa flutt tugi herflokka og mikið magn vopnabúnaðar til landsins. Að sögn rússnesku Spútnik-fréttaveitunnar voru vélarnar sendar til Venesúela til að uppfylla „tæknihluta hernaðarsamnings“ ríkjanna.

BBC segir Javier Mayorca, blaðamann í Venesúela, hafa greint frá því á Twitter að hann hafi séð um 100 hermenn og 35 tonn af búnaði vera flutt úr herflugvélunum.

Þrír mánuðir eru nú frá því ríkin tvö stóðu að sameiginlegri heræfingu, en mikil efnahags- og stjórnarkreppa hefur ríkt í Venesúela undanfarin misseri. Þrýst hefur verið á Nicolas Maduro forseta landsins að segja af sér og hafa tugir erlendra ríkja lýst yfir stuðningi við að þingforsetinn og leiðtogi stjórnarandstöðunnar Juan Guaidó gegni embættinu þar til kosið hefur verið að nýju. Rússar hafa hins vegar lýst yfir áframhaldandi stuðningi við stjórnvöld í landinu og hafa fordæmt önnur ríki fyrir stuðning sinn við Guaidó.

Sagði Mayorca í færslu sinni að rússnesk Antonov-124 flutningavél og önnur minni vél frá hernum hefðu lent á flugvelli í nágrenni Caracas á laugardag og að rússneski herforinginn Vasily Tonkoshkurov hefði farið fyrir hermönnunum er þeir yfirgáfu vélarnar.

Segir BBC myndir sem birtar hafi verið á samfélagsmiðlum í gær hafa sýnt rússneska hermenn á flugvellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert