Hreinsa upp eitt mengaðasta svæði Víetnam

Bandarísk herþyrla sést hér úða eitrinu yfir skóglendi í Víetnamstríðinu.
Bandarísk herþyrla sést hér úða eitrinu yfir skóglendi í Víetnamstríðinu. Ljósmynd/Wikipedia.org

Bandarísk yfirvöld hafa samþykkt umfangsmikið hreinsunarverkefni í Víetnam, en til stendur að hreinsa upp gamlan herflugvöll þar sem Bandaríkjaher geymdi efnavopnið Agent Orange. Talið er að það muni taka um 10 ár að hreinsa svæðið og hljóðar kostnaðurinn upp á 183 milljónir dala, sem samsvarar um 22 milljörðum króna. 

Um er að ræða Bien Hoa-flugvöllinn, sem er skammt frá Ho Chi Minh-borg. Svæðið er talið eitt það mengaðasta í landinu. Þetta kemur fram á vef BBC.

Agent Orange er eiturefni sem Bandaríkjaher notaði í Víetnamstríðinu, sem lauk fyrir um fjórum áratugum, til að eyða laufi trjáa og blöðum plantna, en þannig reyndi herinn að svipta hulunni af felustöðum víetnamskra óvinahermanna. 

Efnið inniheldur díoxín sem er eitt eitraðasta efni sem er að finna í heiminum. Menn rekja notkun efnisins til aukinnar tíðni krabbameins sem hefur greinst meðal íbúa auk þess sem mikið hefur verið um alvarlega fæðingargalla meðal barna. 

Yfirvöld í Víetnam segja að um Agent Orange hafi haft áhrif á um sjö milljónir íbúa, þar á meðal um 150.000 börn sem fæddust mikið vansköpuð. 

Við Bien Hoa-flugvöllinn hefur efnið greinst bæði í jarðvegi og í nærliggjandi ám. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert