Søreide fordæmir ódæðin á Sri Lanka

Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, í heimsókn á Íslandi …
Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, í heimsókn á Íslandi á dögunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum ekki fengið neinar upplýsingar um að Norðmönnum hafi orðið meint af árásunum, en við höfum svo sem takmarkaða yfirsýn enn sem komið er.“

Þetta segir Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs fyrir Hægriflokkinn, í samtali við norsku fréttastofuna NTB í dag en það er dagblaðið VG sem hefur samtalið eftir. Søreide fordæmir ódæðin harðlega, segir þau hörmuleg og bera vott um hugleysi.

Ráðherrann segir um 400 Norðmenn hafa tilkynnt veru sína á Sri Lanka til ráðuneytisins og þar verði unnið fram á kvöld við að staðsetja þá sem á svæðinu eru og athuga með ástand þeirra. „Við munum veita þá aðstoð sem okkur er kleift að veita þarfnist einhverjir þess,“ segir Søreide.

Hún segir SMS-skilaboð hafa verið send í öll norsk farsímanúmer sem tengdust símasendum á Sri Lanka í morgun. „Við hvetjum alla Norðmenn á svæðinu til að láta vita af sér og tilkynna um hvort þeir séu óhultir,“ segir utanríkisráðherra.

Norska ríkisútvarpið NRK ræddi í morgun við Åsbjørn Drengstig sem er staddur í höfuðborginni Colombo. „Við urðum vitni að eftirleiknum, lögregla og öryggissveitir komu strax á vettvang og framkvæmdu leit á hótelinu okkar,“ sagði Drengstig við ríkisútvarpið. Hann sagði árásirnar hafa beinst að fjölmennustu ferðamannastöðunum en Drengstig þekkir vel til á Sri Lanka og hefur starfað þar um árabil.

„Hér ríkir útgöngubann, við megum ekki fara út af hótelinu. [...] Við upplifum okkur örugg núna,“ sagði Drengstig. Fjölskyldan hyggist reyna að komast heim til Noregs í nótt en hann viti ekkert um hvernig þær ferðaáætlanir gangi. „Við vitum ekkert hvort öllu hafi verið lokað, hvort flugvöllurinn sé þar með lokaður,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert