12 látnir úr streptókokkum í Essex

Sýkingin getur verið lífshættuleg þegar bakterían kemst á staði þar …
Sýkingin getur verið lífshættuleg þegar bakterían kemst á staði þar sem venjulega er ekki bakteríur að finna. AFP

Tólf eru látnir úr sjaldgæfri bakteríusýkingu í Essex í Bretlandi samkvæmt upplýsingum frá breska heilbrigðiskerfinu NHS, en um er að ræða streptókokkasýkingu í flokki A. Alls hafa 32 tilfelli bakteríusýkingarinnar verið tilkynnt.

Greint er frá málinu á vef Guardian, en þar segir að fyrsta tilfellið hafi komið upp í Braintree og síðan breiðst út til Chelmsford og Maldon, en samkvæmt NHS er um staðbundna útbreiðslu að ræða.

Bakterían finnst gjarnan í hálsi og á húð fólks og getur fólk sem smitað er af bakteríunni verið án einkenna, samkvæmt frétt Guardian, en bakterían getur lifað lengi á þessum stöðum og smitast auðveldlega milli fólks með hnerra, kossum og annarri snertingu.

Sýkingin getur verið lífshættuleg þegar bakterían kemst á staði þar sem venjulega er ekki bakteríur að finna, svo sem í blóði, vöðvum og lungum.

Flestir þeirra látnu voru eldri borgarar og þegar í meðferð vegna annarra sjúkdóma, en heilbrigðiseftirlitið í Essex hefur sett af stað viðbragðsáætlun til að hefta frekari útbreiðslu bakteríunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert