Jarðsettu ástvini 27 árum síðar

Frá kirkjugarðinum í Prijedor í dag, þar sem 86 fórnarlömb …
Frá kirkjugarðinum í Prijedor í dag, þar sem 86 fórnarlömb fjöldamorðs Bosníuserba voru jarðsett, 27 árum eftir andlát þeirra. AFP

Líkamsleifar 86 múslima sem voru myrtir af hersveitum Bosníu-Serba í bosnísku borginni Prijedor í upphafi Bosníustríðsins voru jarðsettar í dag. Hundruð ættingja komu saman og lögðu ástvini sína til hinstu hvílu, 27 árum eftir að þeir voru myrtir.

Lík þeirra fundust í fjöldagröf í fjallahéraðinu Koricanske Stijene árið 2017 og voru flestir þeirra sem jarðsettir voru í dag karlkyns, margir ungir menn og táningar.

Fórnarlömbin sem jarðsett voru í dag voru í hópi yfir 200 borgara, bæði bosnískra múslima og kaþólskra Króata, sem teknir höfðu verið höndum af hersveitum Bosníu-Serba. 21. ágúst 1992 var föngunum smalað um borð í rútur og sagt að til stæði að gera fangaskipti á milli stríðandi fylkinga.

Hundruð ættingja og vina fórnarlambanna komu saman í dag.
Hundruð ættingja og vina fórnarlambanna komu saman í dag. AFP

Svo var ekki. Þegar rúturnar komu upp í fjallahéraðið var mönnunum skipað að fara frá borði og raða sér upp á klettabrún. Þar voru þeir teknir af lífi og líkunum hent ofan í klettagjá, samkvæmt fjölda dóma sem fallið hafa gegn liðsmönnum hersveita Bosníuserba vegna morðanna.

Hingað til hafa verið borin kennsl á 181 fórnarlamb fjöldamorðsins í Koricanske Stijene, þar af 176 múslima og fimm Króata, samkvæmt Mujo Begic, sem starfar hjá bosnískri stofnun sem vinnur að því að afhjúpa örlög þeirra sem hurfu í Bosníustríðinu, sem stóð frá 1992 til 1995 og kostaði 100.000 mannslíf.

Enn þá er ekki vitað neitt um afdrif 650 einstaklinga, sem ekkert hefur spurst til síðan að serbneskar sveitir náðu yfirráðum yfir svæðinu í nágrenni Prijedor í apríl árið 1992.

Lík mannanna fundust í klettagjá í fjallahéraðinu Koricanske Stijene árið …
Lík mannanna fundust í klettagjá í fjallahéraðinu Koricanske Stijene árið 2017. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert