Miðflokkurinn með næstmest fylgi

Norska Stórþingið.
Norska Stórþingið. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Miðflokkurinn í Noregi mælist með næstmest fylgi norskra stjórnmálaflokka samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar, eða 20,9%. Flokkurinn hefur tvöfaldað fylgi sitt miðað við síðustu þingkosningar haustið 2017 en þá hlaut hann 10,3%.

Verkamannaflokkurinn mælist með mest fylgi eða 21,7% en hann hlaut 27,4% í kosningunum 2017. Hægriflokkurinn er með þriðja mesta fylgið eða 20,6% miðað við 25% kjörfylgi. Framfaraflokkurinn mælist með 8,9% miðað við 15,2% í síðustu kosningum. Sósíalíski vinstriflokkurinn er með 8,4% miðað við könnunina, Umhverfisflokkurinn með 6,5%, Rautt með 4,4%, Kristilegi þjóðarflokkurinn 3,8% og Venstre með 3%.

Gæti orðið stærsti flokkur Noregs

Verkamannaflokkurinn og Hægriflokkurinn hafa sögulega séð verið turnarnir í norskum stjórnmálum en haft er eftir stjórnmálafræðingnum Johannes Bergh hjá rannsóknastofnuninni Institutt for samfunnsforskning á fréttavefnum Abcnyheter.no að einungis sé tímaspursmál hvenær Miðflokkurinn kunni að verða stærsti flokkur Noregs.

Bergh bendir á að munurinn á Verkamannaflokknum, Miðflokknum og Hægriflokknum sé innan skekkjumarka. Framfaraflokkurinn hefur ekki mælst með minna fylgi frá árinu 2007 í könnunum fyrirtækisins Opinions sem framkvæmdi umrædda könnun.

Meðal helstu stefnumála Miðflokksins er að segja upp aðild Noregs að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og semja þess í stað um tvíhliða fríverslunarsamning við Evrópusambandið. Flokkurinn beitti sér gegn samþykkt þriðja orkupakka sambandsins á norska þinginu sem mikil umræða fór fram um hér á landi.

Könnunin byggir á svörum frá 964 viðmælendum dagana 5. — 11. nóvember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert