Taka lán til að flytja líkin heim

AFP

Einhverjar af fjölskyldum 39 Víetnama sem fundust frosnir í hel í flutningabíl í Bretlandi í síðasta mánuði fá lán frá stjórnvöldum til þess að fara að sækja ösku ættingja sinna í Bretlandi.

Þetta staðfestir utanríkisráðuneytið í Víetnam. Að ættingjarnir fái aðstoð við að koma öskunni heim en fjölskyldurnar verði sjálfar að greiða kostnaðinn af flutningnum. Kostnaðurinn við að flytja krukku með öskunni er 1.774 Bandaríkjadalir, 219 þúsund krónur. Á sama tíma er kostnaðurinn við að flytja lík 2.858 dalir  sem svarar til 353 þúsund króna, samkvæmt upplýsingum AFP-fréttastofunnar frá utanríkisráðuneyti Víetnam.

Fjölskyldurnar segja að þrátt fyrir að hafa ekki ráð á því þá vilji þær flytja ösku þeirra heim og því neyðist þær til þess að taka lán fyrir kostnaðinum sem því fylgir.

„Við erum harmi slegin en við viljum fá hann heim eins fljótt og auðið er,“ segir Le Minh Tuan en þrítugur sonur Tuan er meðal fórnarlambanna sem fundust í frystigámnum í Essex 23. október. „Við greiðum hvað sem það kostar. Þó svo ég þurfi að selja hús mitt eða land. Ég er ákveðinn í að fá hann heim aftur,“ segir Tuan en sonur hans, Le Van Ha, lætur eftir sig tvö ung börn og eiginkonu. 

Fjölskyldan hafði þegar greitt smyglurum 30 þúsund Bandaríkjadali, 3,7 milljónir króna, fyrir að koma Ha til Evrópu. Það er gríðarlega há fjárhæð í hans heimahögum en þar eru meðalárslaun um 1.200 Bandaríkjadalir. Tuan segir að hann muni reyna að fá líkið flutt heim í stað ösku svo hægt sé að veita honum hefðbundna útför. Líkbrennsla er ekki algeng á landsbyggðinni í Víetnam en flestir þeirra sem létust eru þaðan. 

Utanríkisráðuneytið hefur hvatt fjölskyldurnar til þess að samþykkja að líkin verði brennd í Bretlandi og flutt heim í kjölfarið. Það sé betra af mörgum ástæðum, svo sem fljótlegar, ódýrara og betra út frá hreinlætisástæðum. 

Vo Thi Hong segir að fjölskyldan muni steypa sér í frekari skuldir svo bróðir hennar Vo Nhan Du fái hefðbundna útför í heimalandinu. „Það er forgangsmál að koma honum heim og við finnum síðar út úr því hvernig við endurgreiðum lánið,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert