Lendir í dag og vill frið

Friðarverðlaunahafi Nóbels, Abiy Ahmed Ali, kemur til Óslóar í dag …
Friðarverðlaunahafi Nóbels, Abiy Ahmed Ali, kemur til Óslóar í dag og hefur eigin hugmyndir um dagskrána sem almennt nær yfir þrjá daga en verður styttri að þessu sinni þar sem hann hyggst ekki veita nein viðtöl, aðeins flytja fréttamönnum yfirlýsingu eftir að hann fundar með Ernu Solberg. Á myndinni sést Ali með Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, nýverið. AFP

Friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2019, Abiy Ahmed Ali, forsætisráðherra Eþíópíu, lendir á Gardermoen-flugvelli í dag, tæpum sólarhring fyrir verðlaunaathöfnina, og vill frið í bókstaflegum skilningi, ekki bara þann sem verðlaunin eru kennd við heldur hefur ráðherrann skorið dagskrá sem almennt nær yfir þrjá daga niður í tæpa tvo auk þess að hafna öllum viðtölum og neita að vera við friðarhátíð alþjóðasamtakanna Save the Children sem nú  verður haldin í 29. skipti samhliða friðarverðlaunahátíð Nóbels.

Ali hefur skorið allar yfirlýsingar við nögl síðan ljóst varð að friðarverðlaunin 2019 féllu honum í skaut fyrir að lyfta grettistaki í að koma á friði við nágranna sína í Eritreu eftir tæplega tveggja áratuga viðsjár og hernaðarlega spennu milli nágrannaríkjanna. Ekki hélt hann blaðamannafund til að tjá sig um útnefningu sína en ræddi þó stuttlega við norska ríkisútvarpið NRK eftir að Nóbelsstofnunin í Ósló tilkynnti niðurstöðuna í október.

Hefðbundin viðtöl falla niður

Síðustu ár hafa fjórir liðir verið fastir við afhendingu friðarverðlaunanna og allir falið í sér að spurningum er beint til friðarverðlaunahafans eða -hafanna, þetta eru blaðamannafundur daginn fyrir athöfnina, sem sagt í dag, áðurnefnd hátíð Save the Children þar sem skólabörn hitta verðlaunahafa og spyrja hann eða þá nokkurra spurninga, stóra Nóbelsviðtalið við NRK, BBC og Al Jazeera og blaðamannafundur eftir fund friðarverðlaunahafa með forsætisráðherra Noregs.

Þessir liðir falla allir niður nema friðarhátíð barnanna en þar verður Ali hvergi nálægur heldur sendir friðarráðherra sinn, Muferihat Kamil, í staðinn. Skrifstofa friðarverðlaunahafans hefur tilkynnt Nóbelsstofnuninni að eftir fundinn með Ernu Solberg forsætisráðherra muni friðarverðlaunahafinn hitta blaðamenn en aðeins flytja þeim ávarp, engar spurningar verða í boði.

Stoppar samt tvöfalt lengur en Obama

Þessi feimni friðarverðlaunahafans þykir hin vandræðalegasta fyrir skipuleggjendur hátíðarinnar en Olav Njølstad, forstöðumaður Nóbelsstofnunarinnar, tekur upp hanskann fyrir verðlaunahafann í tölvupósti til NRK. „Dagskráin fyrir friðarverðlaunahafana er orðin mjög umfangsmikil. Flestum verðlaunahafanna þykir það kannski ekkert tiltökumál að taka þrjá, fjóra daga frá fyrir hefðbundna dagskrárliði verðlaunaafhendingarinnar. Fyrir þjóðarleiðtoga er málið ekki eins einfalt,“ skrifar Njølstad.

Enn fremur bendir hann á að Ali stjórni ríki sem glímir við mun stærri stjórnmálalegar, efnahagslegar og félagslegar áskoranir en annar þjóðarleiðtogi sem hlaut verðlaunin árið 2009, nefnilega Barack Obama, þáverandi Bandaríkjaforseti. „Samt stoppar hann tvöfalt lengur en Obama gerði,“ klykkir forstöðumaðurinn út í pósti sínum.

Abiy Ahmed Ali tekur á móti friðarverðlaununum við hátíðarathöfn í Ráðhúsi Óslóar á morgun klukkan 13 að norskum tíma, 12 að íslenskum.

NRK

Dagen

Dagsavisen

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert