Að skrifa sig frá sorginni

Tiril Broch Aakre og Trude Lorentzen sneru vörn í sókn …
Tiril Broch Aakre og Trude Lorentzen sneru vörn í sókn og skrifuðu hvor sína bókina um veikindi og sjálfsvíg mæðra sinna sem linaði jötungrip sorgarinnar. Þær komu fram á bókmenntakvöldi í Deichman-bókasafninu í Ósló á fimmtudaginn og sögðu frá bókum sínum og glímunni við norskt geðheilbrigðiskerfi. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Fyrirlestrahorn Deichman-bókasafnsins í Ósló var þétt setið á fimmtudagskvöldið, raunar svo þétt að starfsfólk hafði varla undan að bera að aukastóla undir áhugasama gesti sem dreif að til að hlýða á mál tveggja norskra kvenna, þeirra Trude Lorentzen og Tiril Broch Aakre, sem komnar voru til að ræða um hvort tveggja erfitt mál og um leið kannski óvenjulegt fyrir bókmenntakvöld en mæður þeirra beggja fyrirfóru sér eftir þungbæra þrautagöngu um heilbrigðiskerfi sem stundum virtist ekki vita alveg í hvorn fótinn það ætti að stíga.

Þema kvöldsins var „Sjálfsmorð í bókmenntum“ þótt skírskotunin þar væri ekki almenn heldur sneri fyrst og fremst að bókunum sem Trude og Tiril skrifuðu um mæður sínar og örlög þeirra, sjálfum sér til sáluhjálpar og lesendum bókanna til upplýsingar.

Trude Lorentzen er blaðamaður á Dagbladet, áður á VG og Aftenposten, og hafði sent frá sér eina bók áður en bók hennar Ráðgátan mamma (n. Mysteriet mamma) kom út árið 2013. Bókin vakti þegar þjóðarathygli, var tilnefnd til bókmenntaverðlaunanna Brageprisen og hlaut Olaf-verðlaunin árið 2014, verðlaun sem veitt eru ár hvert fyrir verk sem þykir hafa afgerandi forvarnagildi gegn sjálfsvígum ungs fólks og heita í höfuðið á 19 ára gömlum manni sem tók eigið líf óvænt og skyndilega árið 2011.

Hilde Østby umræðustjóri, vinstra megin, spurði höfundana út í forsögu …
Hilde Østby umræðustjóri, vinstra megin, spurði höfundana út í forsögu skrifa þeirra og hvernig gengið hefði að munda stílvopnið í upphafi langs ferðalags. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Tiril Broch Aakre er yfirritstjóri norskra fagurbókmennta hjá bókaforlaginu Vigmostad & Bjørke og þýðandi auk þess að vera höfundur fjögurra bóka, en sú fjórða, Mæður og dætur (n. Mødre og døtre), sem kom út í haust og fjallar um líf og andlát móður hennar, hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og þegar verið tilnefnd til gagnrýnendaverðlauna æskunnar, Ungdommens kritikerpris, árið 2020.  

Umræðustjóri og spyrill kvöldsins var svo enn einn bókmenntagrúskarinn, Hilde Østby, rithöfundur, bókmenntagagnrýnandi Aftenposten og ritstjóri Landsbókasafns Noregs.

Stökk út um glugga á sjöundu hæð

Spjallið hófst með því að Trude sagði frá aðdraganda sjálfsvígs móður hennar sem stríddi við alvarlegt þunglyndi í eitt ár og þrjá mánuði og gerði á þeim tíma margar tilraunir til að enda líf sitt. Það tókst henni að lokum þegar hún var nauðungarvistuð á geðdeild en fékk af einhverjum ástæðum að fara án eftirlits í göngutúr um deildina þrátt fyrir sögu um ítrekaðar sjálfsvígstilraunir. Áður en starfsfólk fékk rönd við reist hafði þessi þá 46 ára gamla kona fundið glugga á sjöundu hæð sem hún gat opnað og stökk í dauðann.

Þetta var árið 1990 og Trude, sem er einkabarn, var 15 ára gömul og móðir hennar auk þess einstæð. Hún sagði næstu tvo áratugi eftir þetta atvik hafa farið í að jafna sig á áfallinu. „Ég skrifaði svo bókina, ekki bara til að draga upp mynd af mömmu og því hvernig ég minnist hennar, heldur líka til að spyrja spurningarinnar hvers vegna þetta gerðist,“ sagði Trude við áheyrendur í salnum. Hún sagði svo frá því að ótrúlegustu hlutir hefðu hjálpað henni í glímunni við sorgina, svo sem þegar faðir hennar fór með henni á vettvang sjálfsvígsins. „Hann benti mér á að mamma hefði lent á grasflöt sem þarna var en ekki á malbikinu sem var skammt undan, það hefði verið miklu verra, og þessi staðreynd varð mér haldreipi á þessum tíma þótt ótrúlegt sé,“ sagði Trude og leit út í salinn þar sem heyra hefði mátt saumnál detta.

Glímdi við geðhvarfasýki í 20 ár

Hilde umræðustjóri beindi þá máli sínu að Tiril og því hver hefði orðið kveikjan að hennar bók. „Ég tekst á við alla hluti í lífinu með því að skrifa um þá,“ hóf forlagsritstjórinn mál sitt. Móðir hennar, félagsfræðingur og listmálari, var orðin sjötug þegar hún fyrirfór sér á heimili sínu árið 2017 eftir að hafa langvinna hildi háð við geðhvarfasýki sem setti mark sitt á alla hennar tilveru síðustu 20 árin sem hún lifði.

Líklega komust færri að en vildu á bókmenntakvöldi með yfirskriftinni …
Líklega komust færri að en vildu á bókmenntakvöldi með yfirskriftinni „Sjálfsmorð í bókmenntum“ (n. Selvmord i litteraturen) í Deichman-bókasafninu á fimmtudagskvöldið og bar starfsfólk safnsins klappstóla að í gríð og erg eftir því sem fjölgaði í hópi áheyrenda. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Móðirin var fyrst lögð inn hálfsextug en að sögn dóttur hennar kviknuðu sjálfsvígshugsanir ekki fyrr en síðasta hálfa árið sem hún lifði. „Ég skrifaði bókina fyrst og fremst til að lýsa móður minni, þeirri stórkostlegu manneskju sem hún hafði að geyma. Síðasta hálfa árið var hún mjög veik,“ sagði Tiril.

Það þungbærasta, að hennar sögn, var að hafa aldrei getað borið upp og fengið svör við spurningunni hvað fjölskyldan hefði getað gert öðruvísi. Eins hefði heilbrigðiskerfið að mörgu leyti brugðist móður hennar, til dæmis með því að leyfa henni að fara heim af geðdeild í leyfi í því trausti einu að hún sagðist ekki hafa meint það þegar hún sagði kvöldið áður að hún vildi fara heim og enda líf sitt þar.

„Þá höfðum við systurnar ekki fengið neinar upplýsingar um hve illa haldin mamma var. Hún hafði reynt að fyrirfara sér tvisvar inni á deild og því var haldið leyndu fyrir okkur og þagnarskyldu borið við,“ rifjaði Tiril upp.

Gat varla lesið bréfin

„Eftir að henni tókst svo að fyrirfara sér fengum við engin svör. Mikil hjálp hefði falist í því ef einhver frá stofnuninni hefði þá verið tilbúinn að ræða við okkur og útskýra hlutina. Í staðinn fengum við endalaust að heyra „við gerðum allt sem við gátum“ sem við upplifðum eins og verið væri að velta ábyrgðinni yfir á okkur aðstandendur. Ef heilbrigðiskerfið gerði allt sem það gat, vorum það þá við fjölskyldan sem gerðum ekki eitthvað sem við hefðum átt að gera?“ spurði Tiril út í salinn með slíku jafnaðargeði að hún hefði getað verið að tala um veðrið.

Tiril Broch Aakre, lengst til hægri, sagði áheyrendum frá því …
Tiril Broch Aakre, lengst til hægri, sagði áheyrendum frá því hvílíkt átak það hefði verið að opna kassa með sendibréfum frá móður hennar þegar hún var að hefja vinnu við bók sína, Mæður og dætur. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Að hefja bókarskrifin var heldur ekkert áhlaupaverk, eins og Tiril útskýrði betur í samtali við mbl.is að lokinni dagskrá og kemur fram hér neðar. „Þetta var allt of dimmt, allt of sorglegt,“ sagði hún áheyrendum og lýsti því svo hvílíkt grettistak það hefði verið henni að opna kassa með sendibréfum sem móðir hennar skrifaði henni af geðdeildinni. Hún ætlaði hreinlega ekki að hafa sig í að lyfta lokinu.

„Að lokum gerði ég það og fór að lesa bréfin aftur og þá fann ég til ósegjanlegs léttis. Mér fannst ég sjá glitta í þá manneskju sem móðir mín raunverulega var, bak við veikindin,“ sagði Tiril frá. Í bréfunum, sem hún hafði lesið á sínum tíma en ekki eftir andlát móður hennar, sagðist hún hafa öðlast nýja mynd af síðustu árum þessarar konu sem hafði verið förunautur hennar alla ævi. Þannig hafi bréfasafnið, sem í fyrstu olli henni lamandi ótta, gefið henni þann kraft sem hún þurfti til að ýta úr vör og hefja skrifin.

Auðvelt að skrifa um morð og hryðjuverk

Talið berst að sjálfsvígum í fjölmiðlum, meðal annars vegna nýlegrar fjölmiðlaumfjöllunar um Ari Behn, rit­höf­und­, mynd­list­armann og fyrr­ver­andi eig­inmann Mörtu Lovísu prins­essu, sem féll fyrir eigin hendi á jóladag.

„Það er auðvelt að skrifa um morð og hryðjuverk, en það er allt annað mál að skrifa um sjálfsmorð,“ sagði Trude, blaðakona til margra ára, og bar saman banaslys í umferðinni og sjálfsvíg. „Í umferðinni erum við með þetta núlltakmark [n. nullvisjon, það takmark að enginn láti lífið í umferðinni], en hvað sjálfsvíg snertir er staðan allt önnur,“ sagði hún enn fremur og kastaði fram þeirri tölfræði að þrátt fyrir að sexfalt fleiri dauðsföll spryttu af sjálfsvígum en vélknúnum ökutækjum í Noregi væri fjölmiðlaumfjöllun um þessar ólíku dánarorsakir í allt öðrum hlutföllum.

Eftir að Trude og Tiril höfðu lesið kafla úr bókum sínum fyrir viðstadda þökkuðu þær áheyrnina við dynjandi lófatak og voru þeir ófáir, áheyrendurnir sem stigu upp á senuna, annaðhvort til að faðma þær að sér, ræða við þær um eigin reynslu eða hvort tveggja.

Lagði gulnaðar sjúkraskýrslur á borðið

„Að skrifa bókina Ráðgátan mamma var mín aðferð til að tengja mig við það sem gerðist 20 árum áður. Að þora að stíga inn á það svæði sem fullorðin og forvitin manneskja,“ svaraði Trude þegar blaðamaður spurði hana í hverju það hjálpræði hefði falist að skrifa bókina um móður hennar. Enn fremur sagðist hún hafa vonast eftir að finna svör í geðlæknisfræði nútímans sem enginn virtist hafa á reiðum höndum árið 1990, þegar veikindi móður hennar náðu hámarki og hún fyrirfór sér.

Sú leit reyndist torsóttari en Trude hafði órað fyrir. „Þegar ég var að vinna að bókinni lagði ég gulnaðar sjúkraskýrslur hennar á borð færustu sérfræðinga Noregs og spurði hvort þeir gætu „bjargað“ henni. Svörin sem ég fékk voru gjörólík,“ sagði Trude frá.

Heyra hefði mátt saumnál detta í salnum þegar Trude Lorentzen …
Heyra hefði mátt saumnál detta í salnum þegar Trude Lorentzen greindi frá sjálfsvígi móður sinnar sem fékk að fara eftirlitslaus í gönguferð á geðdeildinni þrátt fyrir sögu um ítrekaðar sjálfsvígstilraunir. Hún skrifaði bókina Ráðgátan mamma, Mysteriet mamma, um ævi móður sinnar, veikindi hennar og andlát. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Mamma var inn og út af sjúkrahúsinu, hvort tveggja á opnum og lokuðum geðdeildum með sögu um ítrekaðar sjálfsvígstilraunir á þessu rúma ári sem hún var veik. Hún gekkst undir þungar lyfjameðferðir – og samtalsmeðferðir upp að vissu marki. Ekkert hjálpaði. Enginn hindraði hana heldur í að taka eigið líf á sjúkrahúsinu. Hún fékk að fara eftirlitslaus í gönguferð og fann glugga á sjöundu hæð sem hún stökk út um,“ rifjar blaðakonan og rithöfundurinn upp.

Þögðu um sjálfsvígstilraunir

Upplifun Tiril af norsku geðheilbrigðiskerfi var heldur enginn dans á rósum, eins og hún kom inn á í umræðunum sem greint er frá hér að ofan, og breytti þá engu þótt þær mæðgurnar hefðu verið áratugum síðar á ferð en Trude og hennar móðir.

„Síðasta sjúkrahúsdvöl móður minnar varði í þrjár vikur, svo fór hún heim í leyfi [n. permisjon] og fyrirfór sér þar. Þá hafði hún þjáðst af miklum kvíða í þrjár vikur samfleytt,“ sagði Tiril frá. Hún sagði samskiptin við starfsfólk sjúkrahússins ekki hafa verið með besta móti á þessum tíma, tími sumarleyfa hafi staðið yfir, fundum með henni og systur hennar því stöðugt slegið á frest og eins og fram kom í umræðunum hér framar var þeim ekki greint frá tveimur sjálfsvígstilraunum móður þeirra og þagnarskyldu borið við.

Áheyrendur undir frásögnum rithöfundanna. Að umræðunum loknum þurftu margir að …
Áheyrendur undir frásögnum rithöfundanna. Að umræðunum loknum þurftu margir að deila sínum hjartans málum og erfiðri reynslu með Trude og Tiril og föðmuðu sumir þær að sér á sviðinu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Hún var ekki nauðungarvistuð svo starfsfólk sjúkrahússins gat ekki hindrað hana í að fara heim og heilbrigðisfulltrúi sveitarfélagsins fékk enga vitneskju um það,“ sagði Tiril. „En ég tek fram að sjúkrahúsið fékk engar ákúrur frá fylkismanninum [þegar málið var rannsakað], það fékk sveitarfélagið hins vegar og taldist hafa brotið gegn heilsuverndarlöggjöf. Samkvæmt henni er sveitarfélaginu uppálagt að fylgjast með sjúklingum þegar þeir fara heim,“ sagði hún og nefndi enn fremur skriflega eftirfylgniáætlun sem ekki hefði verið fylgt eftir.

Vissi ekki hvar skyldi byrja

Blaðamaður vék þá talinu að bók Tiril, Mæður og dætur, og spurði hvernig skrifin hefðu hjálpað henni að vinna sig gegnum öldudalinn í kjölfar fráfalls móður þeirra systra.

„Til að byrja með var allt í hrærigraut [n. veldig kaotisk]. Tilfinningar mínar voru í hrærigraut, minningarnar voru í hrærigraut. Ég reyndi að hefja skrifin en vissi ekkert hvar ég átti að byrja. Hvar byrjaði sagan um móður mína? Átti ég að byrja á síðasta hálfa árinu í lífi hennar, átti ég að byrja á barnæsku hennar og tala um föður hennar sem beitti andlegu og líkamlegu ofbeldi á heimilinu?“ spurði höfundurinn og rifjaði upp hve stirt henni var um stef fyrstu skrefin.

„Hvaða tilfinningar bar ég til mömmu? Þegar ég var barn og fram á fyrstu unglingsár vorum við mjög nánar. Í bókinni skrifa ég að ég hafi haft hana í guða tölu. Það er satt. Ég dýrkaði hana. Hún var hetjan mín. Svo brast þessi fagra sýn og erfiða hliðin á mömmu kom í sjónmál. Það flækti málin. Þegar ég byrjaði að skrifa vildi ég vera heiðarleg og segja frá hvoru tveggja, góðu mömmunni og svo þeim gjörðum hennar sem gerðu mér lífið þungbært.

Trude Lorentzen, fyrir miðju, margreynd blaðakona, sagði frá því að …
Trude Lorentzen, fyrir miðju, margreynd blaðakona, sagði frá því að auðvelt væri að skrifa um morð og hryðjuverk, sjálfsvíg væru hins vegar annað mál og erfiðara. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

[Japanski rithöfundurinn Haruki] Murakami sagði að höfundurinn ætti að draga lesandann niður í myrkrið og hefja hann svo upp í ljósið,“ sagði Tiril, „ég gerði mér litla von um að hefja mína frásögn upp í eitthvert ljós, enda sá ég enga týru sjálf. En svo kom ljósið með minningunum, minningum um það sem mamma gaf mér með því að kveikja áhuga minn á bókmenntum og skrifum og því sem ég fann í bréfasafninu hennar,“ sagði Tiril í endurliti sínu til upphafsdaga skrifanna.

Kinnhestar lífsins og krulluforeldrar

Blaðamaður vék nú máli sínu að Trude sem minntist á það í umræðunum að hlutverk foreldra í forvarnastarfi ætti meðal annars að vera að búa börn sín undir að lífið renni sjaldnast áfram eins og smurt, áföll verði á vegi allra, kinnhestar lífsins (n. livets ørefiker) koma, eins og hún orðaði það svo myndrænt við áheyrendur kvöldsins. Fyrsta ástarsorgin, fall á bílprófi og annað mótlæti, smátt sem stórt.

„Ég á tvö börn, 10 og 13 ára, ég er að verða móðir unglinga. Við sem erum foreldrar eigum að búa börn okkar undir það að tilveran mun ekki verða fullkomin og átakalaus alla ævi. Þeir sem fara gegnum uppeldið sem krulluforeldrar,“ sagði Trude og notaði hugtakið „curlingforeldre“ með vísan til hins sérstaka sópknattleiks curling eða krullu, „eiga það á hættu að framleiða kynslóð af fólki sem er ekki í stakk búið til að þola kinnhestana,“ sagði Trude ómyrk í máli og rifjaði í framhaldinu upp hvernig það var að vera sjálf á unglingsárum þegar móðir hennar fyrirfór sér.

„Enginn vina minna fékk að vita að mamma var veik. Ég var viss um að enginn vildi halda vinskapnum við mig ef það spyrðist út,“ sagði hún frá og rifjaði upp þegar hún fékk vini í heimsókn á meðan móðir hennar var á geðdeildinni og gætti þess þá að hafa bílskúrsdyrnar opnar svo sæist að bifreið móður hennar var á staðnum og hún væri því heima. „Svo gerðist það versta af öllu vondu og þá var ekki hægt að halda lygunum áfram. Ég stóð því upp fyrir framan allan bekkinn minn í skólanum og sagði frá því sem gerst hafði. Og það ótrúlega var hvað þau brugðust vel við. Margfalt betur en ég hafði haldið. Ég vildi ekki bíða eftir að einhver vandræðagangur með að umgangast mig byrjaði og dreif bara í að segja hlutina hreint út og ég held að það hafi verið góð hugmynd. Mest af öllu óskaði ég mér að allir, börn, fullorðnir og kennarar, kæmu bara fram við mig eins og ekkert hefði í skorist. Mér fannst ekki góð tilhugsun að vera einhver miðpunktur athyglinnar í sorg og áfalli,“ sagði Trude.

Umræðan opnari í norsku þjóðfélagi

Að lokum barst talið að hlut fjölmiðla, umfjöllun þeirra um sjálfsvíg sem Trude hafði komið inn á í umræðunum fyrr um kvöldið og sagt í mjög öfugu hlutfalli við til dæmis umfjöllun um banaslys í umferðinni sem væru þó margfalt færri.

Þær stöllur gátu þó sammælst um að umræða um sjálfsvíg væri orðin mun opnari í norsku þjóðfélagi hin síðari ár og umræðuefnið komið mun lengra fram úr skugganum en á síðustu áratugum liðinnar aldar. Tiril á lokaorðin eftir vægast sagt fróðlegt kvöld:

„[Norska ríkisútvarpið] NRK var með stórt rannsóknarmál árið 2018 um sjálfsvíg og hvar pottur væri brotinn í geðheilsuvernd. Mín frásögn kom þar við sögu. Þá komst þetta umræðuefni betur í kastljósið. Fleiri hafa líka lagt gjörva hönd á plóg. Uppistandarinn Else Kåss Furuseth setti upp einleik þar sem hún fjallaði um þegar hún missti móður sína og bróður sem bæði féllu fyrir eigin hendi. Hún hefur unnið gríðarmikilvægt starf við að opna umræðuna [Furuseth missti móður sína þegar hún var 11 ára og bróður sinn 17 árum síðar og skrifaði um það bókina Else fer til sálfræðings (n. Else går til psykolog) árið 2018].

Tiril Broch Aakre, Hilde Østby og Trude Lorentzen við lok …
Tiril Broch Aakre, Hilde Østby og Trude Lorentzen við lok fróðlegs bókmenntakvölds á fimmtudaginn. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Þá starfa ótrúlegir dugnaðarforkar í Miðstöð sjálfsvígsrannsókna [n. Senter for selvmordsforskning] sem hafa unnið mikilvægt starf með því að gefa út upplýsingar um rannsóknir sínar að því ógleymdu að tímaritið Samtiden gerði stóra úttekt árið 2018. Þannig að sjóndeildarhringurinn er að víkka og ég vona bara að þetta komi hreyfingu á málið, kveiki áhuga og um leið vilja yfirvalda til að nota hvort tveggja peninga og tíma í þetta málefni,“ segir Tiril Broch Aakre, rithöfundur og forlagsritstjóri, í lok bókmenntakvölds og viðtals þeirra Trude Lorentzen, blaðakonu og rithöfundar, um eldfimt en engu að síður mjög þarft umræðuefni í mannlegu samfélagi okkar daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert