Bretar ósáttir við synjun Pompeo

AFP

Utanríkisráðherra Bretlands, Dominic Raab, er ósáttur við ákvörðun bandarískra yfirvalda um að framselja ekki eiginkonu diplómata sem er ákærð fyrir manndráp af gáleysi í Bretlandi. Raab ræddi við sendiherra Bandaríkjanna í Bretlandi, Woody Johnson, í síma í morgun þar sem hann lýsti vonbrigðum sínum og bresku ríkisstjórnarinnar við ákvörðun Bandaríkjamanna.

Mál bandarísku konunnar, Anne Sacoolas, hefur haft neikvæð á annars góð samskipti ríkjanna tveggja og vakið umræður um mörk friðhelgi diplómata í málum sem tengjast ekki þjóðaröryggi á nokkurn hátt.

Harry Dunn var nítján ára gamall þegar hann lenti í árekstri við bifreið sem ekið var á röngum vegarhelmingi í ágúst. Dunn ók vélhjóli. Slysið varð skammt frá herstöð flughersins í Croughton en bandaríski herinn notar stöðina sem samskiptamiðstöð. Sacoolas, sem játaði að hafa ekið bifreiðinni, var ákærð fyrir manndráp af gáleysi og hættulegt ökulag.

Raab segir að bresk yfirvöld líti svo á að Anne Sacoolas eigi að snúa aftur til Bretlands og stjórnvöld skoði nú vel hvaða möguleikar séu í stöðunni. „Bretland hefði hagað sér á annan hátt ef þetta hefði verið breskur diplómati sem starfaði í Bandaríkjunum,“ segir hann.

Timm Dunn og Charlotte Charles, foreldrar Harry Dunn, krefjast réttlætis …
Timm Dunn og Charlotte Charles, foreldrar Harry Dunn, krefjast réttlætis í málinu. AFP

Anne Sacoolas hefur hingað til neitað að verða við kröfu foreldra Dunns og svara til saka í Bretlandi. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, ákvað að hafna kröfu Breta um framsal. 

Foreldrar Dunn fengu að vita af ákvörðun Pompeo í gær og segja þau að það hafi ekki komið þeim á óvart. „Þetta er lögleysa, spillt stjórnsýsla sem grípur hvert tækifæri til þess að ráðast á jafnvel þeirra nánustu bandamenn alþjóðlega,“ segir talsmaður fjölskyldunnar, Radd Seiger.

Ef Trump og Pompeo telja að þessu ljúki núna er þetta bara upphafið að öðru, segir hann, en fjölskyldan ætlar á fund ríkisstjórnarinnar til þess að ákveða næstu skref í málinu. 

Foreldrar piltsins, Charlotte Charles og Tim Dunn, áttu fund með Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í Hvíta húsinu í október. Þau segja að hann hafi tekið vel á móti þeim en gagnrýndu tilraunir hans til að láta þau hitta Sacoolas sem var í næsta herbergi ásamt ljósmyndurum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert