„Hún hlýtur að þjást líka“

Móðir drengsins, Charlotte Charles, segist þurfa að vita hver beri …
Móðir drengsins, Charlotte Charles, segist þurfa að vita hver beri ábyrgð á dauða sonar hennar til að geta hafið sorgarferlið. Ljósmynd/Twitter

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hvetur bandarísk stjórnvöld til að endurskoða ákvörðun sína um að veita eiginkonu bandarísks diplómata friðhelgi sem grunuð er um að hafa banað breskum unglingi í bílslysi. 

Johnson segist vera tilbúinn að leita til Donalds Trumps Bandaríkjaforseta til að tryggja að Anne Sacoolas snúi aftur til Bretlands og sæti rannsókn vegna andláts Harry Dunn, sem var 19 ára þegar hann lést. 

„Ég held að það sé ekki rétt að beita diplómatískri friðhelgi í þessum tilgangi,“ segir Johnson, sem vonast til þess að Anna Sacoolar komi sjálfviljug til Bretlands og fylgi breskum lögum í einu og öllu hvað varðar rannsókn málsins. 

Dunn lést 27. ágúst þegar mótorhjól hans skall á jepplingi í Northamptonshire, skammt frá flugstöð breska flughersins á Mið-Englandi. 

Harry Dunn lést í bílslysi í lok ágúst. Eiginkona bandarísks …
Harry Dunn lést í bílslysi í lok ágúst. Eiginkona bandarísks diplómata er grunuð um að hafa valdið slysinu en hún fór úr landi fyrir skömmu. Ljósmynd/Twitter

Jepplingurinn, af gerðinni Volvo, ók á sama vegarhelmingi og Dunn en kom úr gagnstæðri átt, að sögn lögreglu, og er 42 ára gömul kona með stöðu grunaðrar í málinu, en lögregla vill ekki gefa upp nafn hennar. Í tilkynningu frá lögreglu segir jafnframt að konan hafi sýnt fullan samstarfsvilja í fyrstu og ekki hafi staðið til að hún yfirgæfi landið, sem hún hefur nú gert. 

Ætlar að ræða rannsókn málsins við Pompeo

Johnson segist vera tilbúinn til að beita sér persónulega svo rannsókn málsins nái fram að ganga. Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, hefur tekið málið upp við Woody Johnson, sendiherra Bandaríkjanna, og mun gera slíkt hið sama í símtali við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í kvöld. 

Lögreglan í Northamptonshire segist njóta aðstoðar utanríkisþjónustunnar til að hafa uppi á hinni grunuðu, sem var aldrei handtekin vegna málsins.

Móðir fórnarlambsins, Charlotte Charles, segist þurfa að vita hver beri ábyrgð á dauða sonar hennar til að geta hafið sorgarferlið. 

„Við skiljum ekki hvernig einhver getur bara hoppað um borð í flugvél og skilið allt eftir í rúst, án þess að tala við okkur eða virða okkur viðlits eða biðjast afsökunar,“ segir hún. „Hún hlýtur að þjást líka — hún er sjálf móðir,“ bætir Charles við. 

Bandaríska sendiráðið í London hefur sent fjölskyldu Dunn samúðarkveðjur. Charles segir í viðtali á NBC að henni hafi misboðið þegar hún las bréfið frá sendiráðinu. 

Í tilkynningu sendiráðsins segir að diplómatískt friðhelgi sé einungis veitt að vel ígrunduðu máli þar sem áhrifa hennar gætir um heim allan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert