Skiptar skoðanir á aðstoð Bandaríkjamanna

Mike Johnson, forseti fulltrúadeildarinnar.
Mike Johnson, forseti fulltrúadeildarinnar. AFP/Drew Angerer

Fjögur frumvörp með samanlögðum útgjöldum upp á 95 milljarða bandaríkjadala (13.461 milljarð íslenskra króna) voru samþykkt í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í dag. Frumvörpin fela meðal annars í sér hernaðarstuðning við Úkraínu, Ísrael og Taívan. Þjóðarleiðtogar þessara þjóða og nágrannaþjóða þeirra höfðu skiptar skoðanir á fréttunum. 

Frum­vörpin voru saman í pakka sem felur einnig í sér ákvæði um upp­töku rúss­neskra eigna og nýj­ar refsiaðgerðir gegn Íran, Rússlandi og Kína.

Þá á sam­fé­lags­miðil­inn TikTtok í hættu á að þurfa að losa sig við kín­verska eig­end­ur sína ell­egar eiga yfir höfði sér bann í Banda­ríkj­un­um, samkvæmt frumvarpi.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði að löggjöfin myndi veita Ísrael og Úkraínu nauðsynlegan stuðning, en einnig að veita mannúðaraðstoð á Gasasvæðinu, í Súdan, Haítí og á fleiri stöðum.

Rússar segja Bandaríkjamenn styðja hryðjuverk

Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seti hef­ur lengi kallað eft­ir auk­inni aðstoð frá Banda­ríkja­mönn­um og fagnaði fréttunum um að 61 milljarður bandaríkjadala væri eyrnamerktur aðstoð í Úkraínu.

Hann sagði að hernaðar- og efnahagsleg aðstoð Bandaríkjanna myndi bjarga þúsundum mannslífa.

Rússar héldu þveröfugu fram. „Þetta mun auðga Bandaríkin enn frekar og eyðileggja Úkraínu enn meira, með því að drepa enn fleiri Úkraínumenn vegna yfirvalda í Kænugarði,“ sagði Dmítrí Peskov, talsmaður skrifstofu forseta í Rússlandi.

María Sakharóva, talsmaður utanríkisráðuneytis Rússlands, sagði að Bandaríkin væru með beinum hætti að aðstoða hryðjuverkamenn í Úkraínu með fjárveitingunni.

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti.
Volodimír Selenskí Úkraínuforseti. AFP/Petras Malukas

Peningurinn þýði þúsundir dauðsfalla

Alls 13 milljarðar bandaríkjadala verður varið í hernaðaraðstoð fyrir Ísraelsríki gegn Hamas-samtökunum. Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, segir að aðstoðin „sendir skýr skilaboð til óvinna okkar“.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, segir frumvarp Bandaríkjamanna sýna mikinn stuðning við Ísraelsríki og að það„verji vestræna menningu“.

Peningunum er að mestu leyti ætlað að nota til að styrkja loftvarnakerfi Ísraels.  

Talsmaður Mahmud Abbas, forseta Palestínu, sagði að hernaðaraðstoð Bandaríkjanna til Ísraels væri ógn gegn palestínsku þjóðinni. Aðstoðin myndi þýða þúsundir dauðsfalla á Gasasvæðinu. 

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels. AFP/Leo Correa

Hernaðaraðstoð í Taívan

Um 8 milljarðar bandaríkjadala eru eyrnamerktir fjárfestingum í kafbátum og til þess að efla samkeppnishæfni Bandaríkjanna við framleiðslu í Kína.

Einhverjum milljörðum er ætlað að fara í hernaðaraðstoð í Taívan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert