Hafnar framsali valds til dómstóls ESB

AFP

Samninganefnd Evrópusambandsins, vegna fyrirhugaðra viðræðna á milli sambandsins og breskra stjórnvalda um viðskiptasamning eftir að Bretland hefur formlega gengið úr því 31. janúar, vill að dómstóll sambandsins sjái um að skera úr um deilur vegna samningsins.

Fjallað er um málið á fréttavef breska dagblaðsins Times en þar segir að komi upp ágreiningur um túlkun og framkvæmd fyrirhugaðs viðskiptasamnings vilji Evrópusambandið að leyst verði úr honum fyrir dómstóli þess sem fyrr segir. Þá bæði hvað varðar viðskipti en einnig fiskveiðar og öryggismál sem til stendur að samið verði um.

Vísað er í innanhússskjal á vegum Evrópusambandsins sem dagblaðið hefur undir höndum. Rifjað er upp í fréttinni að sambandið hafi lagt áherslu á að Bretar verði að fylgja ákveðnum reglum þess eftir útgönguna vilji þeir viðskiptasamning. Krafan um úrskurðarvald fyrir dómstól Evrópusambandsins tengist kröfunni um að umræddum reglum verði fylgt.

Breska ríkisstjórnin hefur vísað því á bug að fallist verði á að dómstóll Evrópusambandsins fái úrskurðarvald vegna fyrirhugaðs viðskiptasamnings, enda sé ljóst að dómstóllinn sé eðli málsins samkvæmt ekki hlutlægur úrskurðaraðili, og sömuleiðis að Bretland gangist undir hluta af regluverki sambandsins eftir útgönguna úr því.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert