Sögufrægt danskt hótel brunnið

Hið sögufræga Hotel Julsø við Himmelbjerget stendur í ljósum logum …
Hið sögufræga Hotel Julsø við Himmelbjerget stendur í ljósum logum í morgun og er byggingin, sem að hluta var frá 1884, gjörónýt. Ljósmynd/Vegfarandi

Hið gamalgróna Hotel Julsø við Himmelbjerget í Danmörku er talið gjörónýtt eftir eldsvoða í morgun. Tilkynnt var um eld í hótelinu, sem reyndar var ekki hótel lengur, aðeins veitingastaður, klukkan 06:40 að staðartíma í morgun og hélt slökkvilið Austur-Jótlands þegar á vettvang.

Hotel Julsø var að hluta tæplega 140 ára gömul timburbygging og varð fljótt ljóst að henni yrði ekki bjargað, upplýsti Vagn Stensig Kristensen, varðstjóri hjá lögreglunni í Ry, Midtjyllands Avis um í morgun.

Slökkvilið náði tökum á eldinum á níunda tímanum en um tíma var hætta á að logarnir næðu til gaskúta á veitingastaðnum. Þeim tókst þó að bjarga tímanlega.

Brann síðast 1890

Þessi svipmikla bygging, sem nú er horfin á braut, á sér langa sögu og er þar ekki ein báran stök þar sem hótelið hefur orðið eldi að bráð áður, árið 1890.

Þegar árið 1850 stóð lítil krá þar sem nú eru rjúkandi rústir. Nokkur ferðamannastraumur var þá þegar um Silkiborgareyjarnar og vinsælt að sigla þar milli eyja á smábátum en upp úr 1860 tók hjólaskipið Hjejlen að sigla um eyjarnar.

Veitingastaðurinn og fyrrverandi hótelið Julsø, að mestu eins og Clausen …
Veitingastaðurinn og fyrrverandi hótelið Julsø, að mestu eins og Clausen teiknaði það um 1890, eftir fyrri brunann. Ljósmynd/Heimasíða Hotel Julsø

Kráin var rifin við eigendaskipti árið 1884 og tveggja hæða hótel reist í stað hennar með yfirbyggðum svölum sem sneru til sjávar. Allt hið glæsilegasta á 19. aldar mælikvarða. Stærstur hluti þess brann í áðurnefndum eldsvoða árið 1890 en hluti gamla hótelsins frá 1884 stóð þó eftir og byggðu þáverandi eigendur við það þá byggingu sem brann í morgun. Hana teiknaði hinn kunni danski arkitekt Rudolf Frimodt Clausen og skartaði nýja hótelið svipmiklum hornturnum með turnspírum í anda Austurlanda.

Enn urðu svo breytingar á Hotel Julsø árið 1936 þegar Karl Kristensen húsameistari fékk það verkefni að reisa nýja krá á svipuðum stað og sú gamla frá 1850. Gekk sú viðbót undir nafninu Søstuen og var tengd hótelinu með tréklæðningu svo úr varð í raun ein bygging. Sú klæðning var síðar fjarlægð, árið 1988.

Hjónin Kristina og Pasquale Ceravolo tóku húsið á leigu árið 2001 og keyptu það í framhaldinu. Lögðu þau hótelreksturinn niður og opnuðu glæsilegt veitingahús í gömlu byggingunni sem þau leituðust við að hafa alla sem upprunalegasta að útliti. Framleiddu þau meðal annars sinn eigin ís á staðnum eftir ítalskri aðferðafræði.

DR

Midtjyllands Avis

Jyllands-Posten

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert