Fundust á lífi eftir 19 daga í óbyggðunum

Jessica O'Connor og Dion Reynolds.
Jessica O'Connor og Dion Reynolds. Ljósmynd/Lögreglan á Nýja-Sjálandi

Göngufólk sem hefur verið saknað í fleiri daga fannst á lífi eftir umfangsmikla leit í óbyggðum Nýja-Sjálands, 19 dögum eftir að fólkið hóf göngu um Kahurangi-þjóðgarðinn. 

Jessica O'Connor og Dion Reynolds, bæði 23 ára gömul, hófu gönguna 9. maí sem þau höfðu áætlað að tæki 6 til 7 daga. Eftir að hafa villst í mikilli þoku slösuðust þau bæði, O'Connor hlaut bakmeiðsl og Reynolds tognaði á ökkla. 

Parið fann vatnsuppsprettu, kveikti eld og hélt kyrru fyrir þar til leitarþyrla sá reyk koma frá varðeldinum. Parið var dregið upp í björgunarflugvél og flutt á sjúkrahús. 

O'Connor, sem er leiðsögumaður, og Reynolds, sem er kokkur, höfðu gætt að því að hafa meðferðis nægar matarbirgðir. 

Leit að parinu hófst 18. maí, en leitaraðilar voru ekki bjartsýnir á að finna parið lifandi þegar leit hafði staðið yfir í viku. 

Samkvæmt BBC var parið í góðu skapi þegar þau fundust, þrátt fyrir að hafa verið án matar í nokkurn tíma og mikinn kulda og úrkomu í þjóðgarðinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert