Yngsta fórnarlambið í Grikklandi 37 daga barn

Heilbrigðisstarfsmaður tekur Covid-sýni í Aþenu.
Heilbrigðisstarfsmaður tekur Covid-sýni í Aþenu. AFP

Grikkir syrgðu í dag 37 daga gamalt ungbarn sem er yngsta fórnarlambið af þeim tæplega 6.800 manns sem hafa látist af völdum Covid-19 í landinu.

„Það hryggir mig að greina frá því að í dag lést yngsta fórnarlamb faraldursins í landinu, ungbarn sem eyddi 17 af 37 dögum sínum í að berjast við kórónuveiruna,“ sagði Kyriakos Mitsotakis, forsætisráðherra Grikklands, á Twitter. „Sorgin er óbærileg,“ bætti hann við.

Að sögn heilbrigðisráðuneytisins var drengurinn litli fluttur á barnaspítalann í Aþenu um miðjan febrúar með bólgu í nefi og hita og var fluttur á gjörgæslu degi síðar. Hann lést á sunnudaginn.

Kyriakos Mitsotakis.
Kyriakos Mitsotakis. AFP

Mikið álag á sjúkrahúsum 

Tæplega 480 manns eru á gjörgæslu í Grikklandi vegna Covid-19. Heilbrigðisráðuneytið sagðist í síðustu viku ætla að biðja um aukafjárveitingu fyrir sjúkrahús landsins. Fram kom að heilbrigðiskerfið í Aþenu væri undir „óbærilegu álagi“.

Ríkisstjórn Mitsotakis hefur verið sökuð af stjórnarandstöðunni um að hafa mistekist við að halda aftur af útbreiðslu kórónuveirunnar þrátt fyrir að takmarkanir hafi verið hertar til muna í nóvember. Fjölgun smita að undanförnu hefur verið rakin til breska afbrigðis kórónuveirunnar sem er afar smitandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert