Gáfu þroskaskertum róandi lyf fyrir bólusetningu

Sveitarfélagið Gjøvik í Innlandet-fylki í Noregi er talið hafa gerst …
Sveitarfélagið Gjøvik í Innlandet-fylki í Noregi er talið hafa gerst brotlegt við lögvernduð réttindi sjúklinga með því að gefa þroskaskertum róandi lyf fyrir bólusetningu til að forðast mótmæli þeirra. Ljósmynd/Alexander Rostad/Facebook-síða Gjøvik

Fylkislæknirinn í Innlandet í Noregi kveður sveitarfélagið Gjøvik þar í fylkinu hafa gerst brotlegt við lög um réttindi sjúklinga og notenda heilbrigðisþjónustu þegar starfsfólk á vegum þess gaf tveimur þroskaskertum skjólstæðingum sveitarfélagsins róandi lyf áður en þeir gengust undir bólusetningu fyrir kórónuveirunni í apríl.

Upp komst um málið 26. apríl við hefðbundið eftirlit á vegum fylkismannsembættisins í Innlandet og var lyfjagjöfinni að sögn ætlað að koma í veg fyrir að fólkið setti sig upp á móti bólusetningunni.

„Reglur um meðhöndlun fólks sem ekki er fært um að veita upplýst samþykki eru mjög strangar,“ segir Harald Vallgårda fylkislæknir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og hefur fylkismaðurinn komist að þeirri niðurstöðu í málinu, að verklag sveitarfélagsins hafi ekki tryggt að lagagrundvöllur hafi verið fyrir lyfjagjöfinni.

Bólusetja þá sem segja já

Sveitarfélagið hóf bólusetningu sjúklinga, sem undir umsjón þess falla, um miðjan apríl. Karin Buflaten Johnsrud, þjónustustjóri heilbrigðisþjónustu Gjøvik, segir í samtali við NRK, að umönnunarstarfsfólk hafi einmitt ráðfært sig við embætti fylkismanns fyrir lyfjagjöfina til að hafa vaðið fyrir neðan sig.

„Við bólusetjum þá sem segja já og þá sem við gefum okkur að segðu já vissu þeir hverju þeir væru að játa,“ segir þjónustustjórinn. „Við ræddum það áður en við hófumst handa hvernig tryggja mætti að upplifun sjúklinganna yrði sem jákvæðust og í tilfellum sumra var lyfjagjöf eitt þeirra ráða sem komu til greina,“ segir hún enn fremur og bætir því við að ekki hafi verið tekin nein ákvörðun um að þvinga fólk til að sæta bólusetningu.

„Að neita að gangast undir bólusetningu við kórónuveiru getur ekki talist grundvöllur valdbeitingar ef notandi [heilbrigðisþjónustu] tilheyrir ekki áhættuhópi eða ber undirliggjandi sjúkdóma. Sem heilbrigðisstarfsfólk stöndum við frammi fyrir siðferðilegum álitamálum þegar kemur að því að bólusetja fólk sem ekki er fært um að veita upplýst samþykki,“ segir Johnsrud að auki og kveður starfsfólk sveitarfélagsins fallast á gagnrýni fylkismannsins.

Lögunum ætlað að tryggja réttindi

Hedvig Ekberg, formaður samtaka þroskaskertra í Noregi, Norsk forbund for utviklingshemmede, NFU, segir lögunum um réttindi sjúklinga ætlað að tryggja réttindi, eins og heiti þeirra gefi til kynna. „Ekki er réttlætanlegt að beita þvingunum bara vegna þess að reiknað sé með vandræðum. Sumir læknar eru þeirrar skoðunar að frekar skuli sleppa bólusetningunni en beita valdi við hana, hins vegar hafa sumir aðstandendur [sjúklinga] verið á öndverðum meiði og talið bólusetninguna svo mikilvæga að réttlæti valdbeitingu,“ segir Ekberg.

Hún telur heppilegra að vinna traust sjúklinga í þeirri viðleitni að veita þeim heilbrigðisþjónustu, en að beita einhvers konar þvingunarúrræðum og hafi töluverð umræða um þetta átt sér stað á vettvangi NFU eftir að bólusetningar hófust um jólin.

NRK

NRKII (NFU gagnrýndi fylkismanninn í Innlandet (þá Hedmark) harðlega árið 2016 í máli sem einnig snerist um réttindi fatlaðra)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert