„Betra að hittast augliti til auglitis“

Leiðtogafundur Joes Bidens Bandaríkjaforseta og Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta stendur nú yfir í Genf í Sviss. Fundur leiðtoganna er sá fyrsti eftir að Biden tók við embætti og því fylgjast fjölmiðlar náið með hverju skrefi leiðtoganna í aðdraganda fundarins. Pútín mætti fyrstur, mörgum að óvörum, en stundvísi hefur hingað til ekki verið talin ein af hans helstu dyggðum. Forseti Sviss, Guy Parmelin, tók á móti Pútín og skömmu síðar kom Biden í höllina við Genfarvatn.  

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Joe Biden Bandaríkjaforseti takast í hendur …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Joe Biden Bandaríkjaforseti takast í hendur fyrir utan Villa La Grange-höllina í Sviss fyrir leiðtogafundinn í hádeginu. AFP

Samskipti ríkjanna hafa verið stirð, svo ekki sé meira sagt, undanfarin misseri en bæði Biden og Pútín hafa sagt nýverið að samband ríkjanna sé verra nú en það hefur verið frá hruni Sovétríkjanna. Fyrir fram er búist við að refsiaðgerðir, vopnavæðing og tölvuárásir verði efst á baugi á fundinum. 

Leiðtogarnir ávörpuðu fjölmiðla stuttlega fyrir fundinn. Biden sagði það alltaf betra að hittast augliti til auglitis og Pútín sagðist vona að fundurinn yrði árangursríkur. Auk forsetanna sátu utanríkisráðherrar ríkjanna, Antony Blinken og Sergei Lavrov, fyrstu umferð fundarins ásamt túlkum. 

Gríðarleg öryggisgæsla er í kringum höllina þar sem leiðtogafundurinn fór …
Gríðarleg öryggisgæsla er í kringum höllina þar sem leiðtogafundurinn fór fram. AFP

Nú hafa ráðgjafar ríkjanna bæst í hópinn og búast má við að viðræðurnar standi fram eftir degi og að þeim loknum munu forsetarnir halda blaðamannafundi hvor í sínu lagi.


Hér má fylgjast með beinni textalýsingu BBC af fundi leiðtoganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert