Vara við eldgosi á Kanaríeyjum

Horft yfir strandlengju La Palma.
Horft yfir strandlengju La Palma. Ljósmynd/Tamara K

Fleiri en 4.200 skjálftar hafa mælst á eynni La Palma, sem tilheyrir Kanaríeyjum, síðan á laugardag. Sterkasti skjálftinn til þessa var 3,4 að styrkleika. Kvika færist hratt upp á við og búast má við öflugri skjálftum.

Eftir að skjálftahrinan hófst hefur athygli jarðeðlisfræðinga beinst að eldfjallahryggnum La Cumbre Vieja, eða Gamla tindinum, sem teygir sig yfir eyjuna nokkurn veginn frá norðri til suðurs og þekur í raun tvo þriðju hluta hennar.

Síðast gaus á hryggnum fyrir fimmtíu árum, árið 1971. Þar áður árið 1949. Voru þetta einu eldgos eyjarinnar á 20. öld.

Gæti breyst snögglega á næstunni

Spænsk yfirvöld á eyjaklasanum segja aðstæður geta breyst mjög snögglega á næstu dögum.

Ljóst er að kvika er tekin að safnast saman í kvikuþrónni undir hryggnum og vart hefur orðið við töluverða aflögun á yfirborði sökum kvikusöfnunarinnar

Jarðskjálftarnir verða sömuleiðis á sífellt minna dýpi, sem bendir til þess að kvikan færist hratt nær yfirborði jarðar.

Muni þróast í stærri jarðskjálfta

Stjórnvöld færðu viðbúnaðarstig almannavarna á gult á þriðjudag, eða á annað af þremur stigum, á svæðum í kringum hrygginn. Þau hafa einnig varað við því að eldgos kunni að vera í vændum.

„Við getum ekki gert spá til skamms tíma,“ er haft eftir Maríu José Blanco, forstjóra Jarðfræðistofnunar Kanaríeyja, í umfjöllun spænska dagblaðsins El País.

„En allt bendir til þess að þetta muni þróast í stærri jarðskjálfta sem verða kröftugri og sem fólk mun finna fyrir.“

Tæplega níutíu þúsund manns búa á eyjunni. En þar með er ekki öll sagan sögð.

Ekki hefur gosið á eynni síðan árið 1971.
Ekki hefur gosið á eynni síðan árið 1971. Ljósmynd/Luca N

Hætta á gífurlegri flóðbylgju

Breskir vísindamenn bentu á það um aldamótin, að hætta væri á að hluti eyjarinnar hryndi í sjó fram, með þeim afleiðingum að gífurleg flóðbylgja gengi á land á eyjunum í Karíbahafi og á Flórída.

Fjallað var um grein þeirra Simons Day og Stevens N. Ward, sem birtist í vísindaritinu New Scientist, í Morgunblaðinu þann 5. október árið 2000.

Í greininni var tekið fram að stór hluti La Palma væri mjög óstöðugur. Komi til þess, að hann skríði fram í sjó, muni það valda stórkostlegri flóðbylgju en áður eru dæmi um.

„Flóðbylgjan myndi fara á þotuhraða og ganga á land við allt norðanvert Atlantshaf,“ segir Day í greininni.

Forsöguleg skriða á Hawaii-eyjum

Sú kenning, að jarðskrið af þessu tagi, geti valdið mikilli flóðbylgju, hafði þá verið kunn í meira en þrjátíu ár en hún á rætur í ummerkjum um slíkar hamfarir í ýmsum löndum í og við Kyrrahafið. Eru þau aftur rakin til gífurlegrar skriðu á Hawaii-eyjum.

Day, sem vann að rannsókninni í boði eldfjallamiðstöðvarinnar á Kanaríeyjum, var við mælingar á Cumbre Vieja í tvö ár.

Var það niðurstaða hans að vesturhlutinn, um 500 milljarðar tonna af bergi, sé smám saman að losna frá eða eftir því sem eldvirknin færir meiri kviku upp á yfirborðið. Mikið gos í fjallinu gæti orðið til að koma skriðunni af stað.

Síðan þá hefur ekki borið mikið á virkni undir niðri. Eða fyrr en nú.

Gæti gengið 20 kílómetra inn í landið

Í umfjöllun Morgunblaðsins var vikið að því, að hjá svissnesku tæknistofnuninni hefði verið reiknað út að skriðan gæti komið af stað flóðbylgju, sem væri 650 metra há í fyrstu en 40-50 metrar þegar hún kæmi upp að ströndum Karíbahafseyjanna, Flórída og annarra ríkja á austurströnd Bandaríkjanna.

Þá gæti hún gengið allt að 20 kílómetra inn yfir landið.

Að sama skapi var bent á að menn greini á um hvenær líklegt sé, að þessar hugsanlegu hamfarir geti orðið. Eldfjallið hefur aðeins gosið sjö sinnum á sögulegum tíma.

Gaus það síðast 1971 eins og áður sagði, og þá alveg syðst á eyjunni, allfjarri hinum óstöðuga vesturhluta eyjarinnar. Hefur það þótt benda til að oft megi gjósa áður en fjallið fer af stað.

Spurningar vaknað

Rúm tuttugu ár eru síðan greinin var birt. Í síðari rannsóknum hefur verið dregið í efa hvort flóðbylgjan geti enn verið af slíkri stærðargráðu þegar hún nær austurströnd Bandaríkjanna.

Einnig hafa spurningar vaknað um hvort hrun vesturhlutans myndi eiga sér stað í einu vetfangi, en gögn þykja gefa til kynna að fyrri álíka atburðir á Kanaríeyjum hafi átt sér lengri framvindu og þar með ekki valdið eins stórum flóðbylgjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert