Sótthreinsa póstsendingar af ótta við ómíkron

Strangar sóttvarnaaðgerðir ríkja nú í Kína en markmið yfirvalda er …
Strangar sóttvarnaaðgerðir ríkja nú í Kína en markmið yfirvalda er að koma alveg í veg fyrir smit berist til landsins. AFP

Póstþjónustan í Kína hefur gripið til nýrra ráðstafana vegna ótta við að ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar leynist með alþjóðlegum sendingum. Hefur starfsmönnum nú verið skipað að sótthreinsa alla þá pakka og bréf sem berast að utan til að koma í veg fyrir að veiran nái sér á strik innan landsteinanna.

Þessi nýja framkvæmd endurspeglar vel þrotlausar tilraunir yfirvalda til að útrýma kórónuveirusmitum í Kína. Er sérstaklega mikið undir núna þar sem landsmenn búa sig undir að halda vetrarólympíuleikana í næsta mánuði.

Þær ströngu sóttvarnaaðgerðir sem ríkja í Kína hafa þó ekki borið tilskilinn árangur en fjöldi hópsmita hefur komið upp síðustu vikur, þar á meðal í Peking.

Telja yfirvöld að rekja megi einhverjar sýkingarnar til pakka sem berast frá öðrum löndum. 

Biðja fólk að kaupa ekki frá ákveðnum svæðum

Í yfirlýsingu frá kínverska póstinum sem var gefin út í gær var starfsmönnum skipað að sótthreinsa ytri pakkningu á öllum alþjóðlegum póstsendingum sem fyrst. Þeir starfsmenn sem meðhöndla pakka og bréf sem berast frá öðrum löndum þurfa sömuleiðis að hafa fengið bæði bólusetningu gegn Covid-19 og örvunarskammt.

Póstþjónustan hefur einnig beðið almenning að draga úr kaupum og sendingum frá löndum og svæðum þar sem smittíðni er há.

Þá verða póstsendingar innanlands einnig meðhöndlaðar á sérstöku svæði svo ekki berist smit í þær.

Ekki eru allir á sama máli um þessa aðgerð en bæði Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) og Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) telja afar ólíklegt að smit geti borist með þessum hætti. Samkvæmt CDC er veiran að mestu horfin af yfirborði eftir þrjá daga, eða um allt að 99%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert