Hljóta friðarverðlaun Nóbels

Berit Reiss-Andersen, formaður norsku Nóbelsnefndarinnar, tilkynnti verðlaunahafa í morgun.
Berit Reiss-Andersen, formaður norsku Nóbelsnefndarinnar, tilkynnti verðlaunahafa í morgun. AFP/Heiko Junge

Hvítrússneski mannréttindafrömuðurinn Ales Bíaljatskí, rússnesku mannréttindasamtökin Memorial og úkraínsku mannréttindasamtökin Miðstöð borgaralegs frelsis (CGS), hljóta friðarverðlaun Nóbels í ár.

Berit Reiss-Andersen, formaður Nóbelsnefndarinnar í Ósló, tilkynnti verðlaunahafana í morgun en verðlaunin verða afhent í Svíþjóð í desember.

Að sögn formannsins þykja verðlaunahafarnir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að halda gagnrýni á valdahafa á lofti og vernda grundvallarréttindi borgara. Þá var þeim einnig hrósað fyrir viðleitni sína við að skrásetja stríðsglæpi, valdníðslu og mannréttindabrot.

Helgað líf sitt lýðræðinu

Bíaljatskí stofnaði mannréttindamiðstöðina Víasna árið 1996 til að bregðast við þeim hrottalegu aðgerðum sem einræðisleiðtoginn Alexander Lúkasjenkó fyrirskipaði til að brjóta á bak mótmæli á götum Hvíta-Rússlands.

„Hann hefur helgað líf sitt því að stuðla að lýðræði og friðsamlegri þróun í heimalandinu sínu,“ sagði Nóbelsnefndin um Hvítrússann.

Bíaljatskí var handtekinn árið 2020 í kjölfar mótmæla vegna kosninga í Hvít-Rússlandi sem stjórnarandstaðan segir að hafi verið ólögleg. Hann er nú í varðhaldi og bíður réttarhalda.

Lögð niður á þessu ári

Memorial samtökin voru lögð niður fyrr á þessu ári en þau voru starfandi í ríflega þrjá áratugi við að endurvekja minningu fórnarlambanna sem voru tekin af lífi, fangelsuð eða ofsótt á tímum Sovétríkjanna.

Samtökin hafa starfaði í óþökk við rússnesk stjórnvöld sem hafa fylgst grannt með því sem þau gera. Árið 2014 setti Kreml Memorial á lista yfir erlenda útsendara, sem nær yfir samtök eða einstaklinga sem stjórnvöld telja að fái fjármögnun erlendis frá.

Samtökin voru síðan lögð niður eftir úrskurð Hæstaréttar í desember á síðasta ári sem kvað á um að Memorial hefðu gerst brotleg gegn lögum um erlenda útsendara eftir að samtökin settu ekki fyrirvara á færslu á samfélagsmiðlum um að efnið væri birt af „erlendum útsendara“.

Skrásetja stríðsglæpi

Úkraínsku samtökin CGS eru sögð leiðandi á sviði mannréttinda en frá stofnun þeirra árið 2007 hafa þau fylgst grannt með pólitískum ofsóknum á Krímskaga, stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyninu í stríðinu í Donbass.

Eftir að Rússar gerðu innrás í febrúar á þessu ári hafa samtökin fylgst með og skrásett stríðsglæpi rússneska hersins gegn úkraínsku þjóðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka